Enski boltinn

Delap með tvö í öruggum sigri í síðasta leik fyrir mót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liam Delap var á skotskónum gegn AC Milan.
Liam Delap var á skotskónum gegn AC Milan. getty/Richard Pelham

Chelsea vann 2-0 sigur á Bayer Leverkusen á föstudaginn og fylgdi honum eftir með því að leggja AC Milan að velli í gær, 4-1. Þetta voru einu tveir leikir Chelsea á undirbúningstímabilinu sem er í styttri kantinum vegna þátttöku liðsins á HM félagsliða.

Liam Delap skoraði tvö mörk fyrir Chelsea gegn Milan. Joao Pedro var einnig á skotskónum og Andrei Coubis gerði sjálfsmark. Youssouf Fofana skoraði mark Milan.

Óhætt er að segja að Coubis hafi átt erfitt uppdráttar í leiknum á Stamford Bridge í gær. Hann skoraði sjálfsmark strax á 5. mínútu og eftir átján mínútna leik var hann rekinn af velli fyrir að brjóta á Joao Pedro er hann var að sleppa í gegnum vörn Milan. Joao Pedro kom Chelsea í 2-0 á 8. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Pedros Neto í netið.

Delap kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma og var ekki lengi að láta að sér kveða. Á 67. mínútu kom hann Chelsea í 3-1 með marki úr vítaspyrnu og á lokamínútunni skoraði hann svo annað mark sitt og fjórða mark heimamanna.

Chelsea keypti Delap frá Ipswich Town í byrjun júní. Hann lék með liðinu á HM félagsliða þar sem Chelsea stóð uppi sem sigurvegari.

Chelsea mætir Crystal Palace í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×