Upp­gjörið: ÍA - Víkingur 0-1 | Víkingur minnkar muninn á Val með langþráðum deildarsigri

Hjörvar Ólafsson skrifar
Óskar Borgþórsson opnaði markareikning sinn fyrir Víking og tryggði liðinu kærkominn sigur. 
Óskar Borgþórsson opnaði markareikning sinn fyrir Víking og tryggði liðinu kærkominn sigur.  Vísir/Diego

Víkingur kom til baka eftir gríðarlegt svekkelsi í Kaupmannahöfn og batt þar að auki enda á fimm leikja hrinu sínu án deildarsigurs þegar liðið sótti þrjú stig í viðureign sinni við ÍA í 19. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á ELKEM-vellinum á Akranesi í kvöld.

Bæði lið mættu nokkuð særð upp til leiks en Skagamenn töpuðu gegn FH í síðustu umferð deildarinnar þar sem liðið glutraði niður 2-0 forystu og tapaði 3-2 á meðan Víkingur fór í sneypuför til Kaupmannahafnar og féll úr leik í fokeppni Evrópudeildarinnar.

Hlynur Sævar Jónsson meiddist í leiknum gegn FH og var ekki með í þessum leik. Þá tóku Jón Gísli Eyland Gíslason og Viktor Jónsson út leikbann vegna fjögurra gulra áminninga.

Sölvi Geir Ottesen hristi svo töluvert í byrjunarliði Víkings til þess að dreifa álaginu. Þar á meðal kom Ingvar Jónsson aftur inn í markið fyrir Pálma Rafn Arinbjörnsson.

Ingvar Jónsson hélt markinu hreinu.Vísir/Hulda Margrét

Víkingur var mun meira með boltann í fyrri hálfleik án þess að opna varnarmúr Skagamanna. Gabríel Snær Gunnarsson, kantmaður Skagaliðsins, fékk hins vegar besta færi fyrri hálfleiksins þegar hann slapp í gegnum vörn Víkings og framhjá Ingvari. Helgi Guðjónsson bjargaði aftur á móti á línu. Víkingar vildu rangstöðu í því atviki en upptaka af leiknum sýnir að Ragnar Þór Bender var með allt upp á tíu.

Valdimar Þór Ingimundarson komst svo næst því að koma Víkingi yfir þegar hann komst í gott skotfæri í upbótartíma fyrri hálfleiks. Árni Marínó Einarsson sá við Valdimar Þór með skemmtilegri handboltamarkvörslu.

Eftir bragðdaufan og frekar lokaðan fyrri hálfleik náði Óskar Borgþórsson forystunni fyrir Víkingin í upphafi seinni hálfleiks. Óskar kom sér í fínt skotfæri á vítateigshorninu og skoraði með hnitmuðu skoti í fjærhornið.

Þetta er fyrsta mark Óskars í fimmta deildarleiknum hans fyrir Víking síðan hann kom í Fossvoginn frá Sogndal í Noregi í miðsumarsgluggnum.

Valdimar Þór Ingimundarson, Gylfi Þór Sigurðsson og Erlingur Agnarsson áttu fínan leik. Vísir/Diego

Skagamenn náðu ekki að svara marki Óskars með jöfnunarmarki en það bætti gráu ofan á svart fyrir Skagann að Baldvin Berndsen fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma seinni hálfleiks. 

Víkingur fer frá Akranesi með stigin þrjú í farteskinu. Þetta var langþráður sigur hjá Víkingi en liðið hafði fyrir þennan leik spilað fimm leiki í deildinni án þess að krækja í sigur. Þar hafði liðið gert þrjú jafntefli og lotið í gras eða gervigras grisvar sinnum.

Með þessum sigri minnkar Víkingur forystu Vals á toppi deildarinnar í tvö stig en Valur laut í lægra haldi fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum fyrr í dag. ÍA vermir aftur á móti botnsæti deildarinnar en liðið er nú fimm stigum á eftir Aftureldingu sem gerði jafntefli við KA í kvöld og er í sætinu fyrir ofan fallsvæði deildarinnar. 

Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings.Vísir / Diego

Sölvi Geir: Karakter að koma til baka eftir þunga daga

„Við náðum að hrista af okkur vonbrigðin í Kaupmannahöfn og það sýnir karakterinn í hópnum hvað við mættum sterkir til þessa leiks. Við vorum meira með boltann í fyrri hálfleik en það gekk kannski ekki nógu vel að opna þá. Við vildum vera beinskeyttir en vorum kannski helst til fljótir að fara í úrslitasendinguna,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings. 

„Við fórum yfir hlutina í hálfleik og ræddum hvar við vildum herja á þá. Það skilaði sér þegar Óskar skoraði í upphafi seinni hálfleiks og við fengum fleiri í seinni hálfleik en þeim fyrri. Við vorum líka bara sharp í báðum vítateigum. Eitthvað sem hefur vantað í leikjum okkar síðustu vikurnar,“ sagði Sölvi Geir enn fremur. 

„Það er gott að ná í þrjú stig eftir dræma stigasöfnun undanfarið. Deildin hefur sem betur fer spilast þannig að við erum ennþá í baráttu um efsta sætið þrátt fyrir að hafa ekki halað inn mörg í síðustu leikjum. Við unnum vel fyrir þessum sigri og leikmenn eiga hrós skilið fyrir vinnusemina þrátt fyrir mikið álag síðustu daga,“ sagði hann. 

„Nú fáum við níu daga til þess að safna orku fyrir næsta leik hjá okkur. Það er kærkomið að fá smá hvíld og prófa kannski að æfa aðeins milli leikja og vera ekki í stöðugri endurheimt. Það eru þreyttar lappir í leikmannahópnum sem hafa gott af því að fara í smá frí frá leikjaálagi,“ sagði Sölvi Geir um framhaldið.

Atvik leiksins

Það hefði skipt sköpum fyrir Skagamenn ef Gabríel Snær hefði náð að binda fallegan endahnút á færið þegar hann slapp einn í gegnum vörn 'Víkings. Sigurmark Víkings kom svo eftir besta kafla Skagamanna í leiknum en heimamenn komu af krafti inn í seinni hálfleikinn. 

Stjörnur og skúrkar

Sveinn Gísli Þorkelsson var öflugur í hjarta varnarinnar hjá Víkingi og Helgi gerði frábærlega þegar hann bjargaði á línu. Gylfi Þór Sigurðsson var mikið í boltanum líkt og Valdimar Þór sem vann vel fyrir liðið. Óskar Borgþórsson var svo hættulegur á kantinum og skoraði að lokum markið sem skildi liðin að. 

Rúnar Már Sigurjónsson átti fínan leik inni á miðsvæðinu hjá Skagamönnum og Árni Marínó átti nokkar góðar vörslur í marki heimamanna. Gabríel Snær var síðan skeinuhættur í framlínu gulra og glaðra. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins þeir Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Gylfi Már Sigurðarson, Ragnar Þór Bender og Gunnar Oddur Hafliðason stóðu sig með sóma eins og þeim er von og vísa. Ekkert upp á þá að klaga og þar af leiðandi fá þeir níu í einkunn fyrir vel unnin störf.

Stemming og umgjörð

Fínasta mæting í stúkuna á Skaganum. Skagamenn studdu sína með kraftmiklum köllum að Skaganna sið á meðan Víkingar voru söngelskari í sinni nálgun. Blaðamenn lifðu í vellystingum á meðan á leik stóð og alls konar gúmmelaði á boðstólnum. Gestrisni Skagamanna algjörlega til fyrirmyndar fyrir önnur félög.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira