Fótbolti

Fóru að slást í klefanum og voru báðir settir á sölu­lista

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adrien Rabiot er þekktari enda franskur landsliðsmaður sem hefur spilað fyirr PSG og Juventus á síðustu árum.
Adrien Rabiot er þekktari enda franskur landsliðsmaður sem hefur spilað fyirr PSG og Juventus á síðustu árum. EPA/DANIEL DAL ZENNARO

Roberto De Zerbi, knattspyrnustjóri Marseille, tók mjög hart á hegðun tveggja leikmanna sinna. Báðum var vísað á dyr hjá félaginu.

De Zerbi hefur nefnilega tilkynnt leikmönnunum að þeir spili ekki aftur fyrir félagið undir hans stjórn.

Leikmennirnir eru Adrien Rabiot og Jonathan Rowe. Þeir fóru að slást eftir að liðið tapaði á móti Rennes í fyrstu umferð frönsku deildarinnar.

Marseille staðfesti í dag að leikmennirnir séu komnir á sölulista og hafa nú til 1. september til að finna sér nýtt félag.

„Þessi ákvörðun var tekin af því að þetta var algjörlega óásættanleg hegðun í búningsklefanum eftir leikinn á móti Stade Rennais FC. Allir í teyminu voru sammála um þetta og við erum með þessu að fylgja siðareglum félagsins,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.

Rabiot og Rowe var tilkynnt þetta á mánudaginn.

Adrien Rabiot er þrítugur franskur miðjumaður og hefur verið hjá Marseille frá 2024. Hann spilaði áður með Paris Saint-Germain og Juventus og hefur spilað 53 A-landsleiki fyrir Frakka.

Jonathan Rowe er 22 ára enskur vængmaður sem Marseille er nýbúið að kaupa frá Norwich City. Hann hefur skorað 3 mörk í 10 leikjum fyrir enska 21 árs landsliðið. Rowe kom fyrst á láni á síðustu leiktíð en Marseille keypti hann eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×