Fótbolti

Mar­tröð á fyrstu æfingu í Róm

Sindri Sverrisson skrifar
Leon Bailey byrjar í brekku á Ítalíu.
Leon Bailey byrjar í brekku á Ítalíu. EPA/TOLGA AKMEN

Leon Bailey, kantmaður Aston Villa, hefur verið lánaður til ítalska knattspyrnufélagsins Roma en fyrsti dagurinn hjá nýja liðinu breyttist í martröð.

Bailey mun nefnilega hafa meiðst strax á sinni fyrstu æfingu í ítölsku höfuðborginni.

Ítalskir miðlar segja að um vöðvameiðsli sé að ræða og að þau verði metin betur í dag.

Bailey er sjálfur sagður svartsýnn og talið að hann verði að minnsta kosti frá keppni næstu þrjár vikurnar.

Þessi 28 ára gamli landsliðsmaður Jamaíku kom eins og fyrr segir að láni frá Villa en Roma á kost á að eignast hann með því að greiða 19 milljónir punda næsta sumar. Villa er þó öruggt um að fá 2,5 milljónir punda vegna lánssamningsins.

Bailey kom til Villa frá Leverkusen sumarið 2021, fyrir 30 milljónir punda, sem einn þriggja leikmanna sem félagið sótti þegar Jack Grealish var seldur. Hann hefur spilað 144 leiki fyrir Villa, skorað 22 mörk og gefið 24 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×