Upp­gjör: Breiða­blik - Virtus 2-1 | Blikar fara út með bara eitt mark í for­skot

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Valgeir Valgeirsson fagnar fyrra markinu en hann bjó til það síðara með því að fiska víti.
Valgeir Valgeirsson fagnar fyrra markinu en hann bjó til það síðara með því að fiska víti. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Breiðablik fer með minnsta mögulega forskot út til San Marínó eftir 2-1 sigur á Virtus í fyrri leik liðanna á Kópavogsvellinum í kvöld. Í boði er hálfur milljarður og sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Blikar voru mun betri aðilinn og hefðu hæglega getað unnið stærri sigur, en gáfu klaufalega vítaspyrnu og nýttu sín færi illa. Liðin mætast aftur eftir viku, úti í San Marínó, þar sem einvígið mun ráðast.

Breiðablik sýndi mikla yfirburði alveg frá fyrstu mínútu en eftir orrahríð að marki Virtus í upphafi leiks voru það gestirnir sem tóku forystuna, þvert gegn gangi leiksins.

Breiðablik var búið að liggja í sókn en fékk á sig skyndisókn og vörnin var alveg úti á þekju. Stefano Scappini slapp inn fyrir og Viktor Örn braut klaufalega, nartaði í hælana hjá honum.

Vítaspyrna réttilega dæmd, Scappini steig sjálfur á punktinn og sendi Anton Ara í vitlaust horn.

Blikarnir voru vankaðir eftir að hafa lent undir og fengu næstum því á sig annað mark, sem hefði verið alveg ævintýralegt klúður miðað við yfirburðina í upphafi, en tókst að bjarga sér frá því.

Eftir það tóku heimamenn aftur við sér og ógnuðu í sífellu. Kristinn Jónsson var einkar hættulegur vinstra megin og gaf nokkrar góðar fyrirgjafir sem Blikarnir nýttu ekki.

Þá ákvað Kristinn að renna boltanum frekar út í teiginn, meðfram jörðinni, sem reyndist frábær ákvörðun. Valgeir Valgeirsson kom á ferðinni og þrumaði í átt að marki, boltinn fór svo af tveimur varnarmönnum en endaði í netinu.

Þrátt fyrir fjölda tilrauna tókst Blikum ekki að setja annað mark fyrir hálfleik en þeir tóku forystuna snemma í seinni hálfleik.

Sá seinni fór rólega af stað en á 55. mínútu fiskaði Valgeir Valgeirsson vítaspyrnu, sem verður að teljast vafasöm. Furðulegt flaut en Tobias Thomsen var ekki að velta sér upp úr því, steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Það sem eftir lifði leiks var Breiðablik mikið með boltann og skapaði sér mörg færi, en ekki endilega frábær færi. Heimamenn vildu augljóslega vinna leikinn stærra og settu sóknarmenn inn á til að reyna að bæta við, en tókst það ekki.

Varamaðurinn Guðmundur Magnússon kom boltanum reyndar í netið í uppbótartímanum, en var rangstæður og markið fékk ekki að standa.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira