Enski boltinn

Eze í treyju númer tíu og byrjar á stór­leik við Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Eberechi Eze skrifar undir samninginn við Arsenal.
Eberechi Eze skrifar undir samninginn við Arsenal. Arsenal.com

Arsenal hefur nú formlega tilkynnt um kaupin á enska landsliðsmanninum Eberechi Eze frá Crystal Palace. Kaupverðið nemur 60 milljónum punda að meðtöldum 8 milljóna punda aukagreiðslum.

Þessi 27 ára gamli leikmaður er þar með mættur aftur til uppeldisfélags síns, eftir kapphlaup Arsenal og Tottenham um þennan öfluga leikmann sem er sá sjöundi sem Arsenal tryggir sér í sumar.

Eze spilaði með Palace í fimm leiktíðir og var algjör lykilleikmaður, meðal annars í því að vinna Manchester City í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í vor þar sem hann skoraði sigurmarkið.

Eze lék áður með QPR á árunum 2016-2020 en fór svo í úrvalsdeildina til Palace.

Hann hefur leikið ellefu A-landsleiki fyrir England og var í enska landsliðshópnum á EM í fyrra.

Arsenal staðfesti í dag að Eze yrði í treyju númer 10 og að hann myndi hitta og kynnast nýju liðsfélögum sínum eftir leikinn við Leeds í dag, en áður hafði þeim möguleika verið velt upp að hann yrði með í þeim leik.

Fyrsti leikur Eze með Arsenal gæti því orðið sannkallaður stórleikur, þegar liðið mætir Liverpool á sunnudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×