Enski boltinn

Full­komin byrjun Everton á nýja heimilinu

Sindri Sverrisson skrifar
Iliman Ndiaye í faðmi Jack Grealish eftir að hafa skorað fyrsta mark Everton á nýja heimavellinum.
Iliman Ndiaye í faðmi Jack Grealish eftir að hafa skorað fyrsta mark Everton á nýja heimavellinum. Getty/Clive Mason

Everton hefði vart getað óskað sér betri byrjunar á hinum nýja og glæsilega Hill Dickinson leikvangi en þegar liðið vann Brighton, 2-0, í dag. Crystal Palace og Nottingham Forest gerðu 1-1 jafntefli.

Iliman Ndiaye skoraði fyrsta markið á nýja heimavellinum, á 23. mínútu, eftir snarpa sókn og fyrirgjöf frá Jack Grealish. Grealish átti svo einnig sendingu á James Garner sem skoraði seinna markið með frábæru þrumuskoti utan teigs á 52. mínútu.

Everton-menn geta þakkað Jordan Pickford fyrir að hafa ekki fengið á sig mark í dag því Brighton fékk nóg af færum og eina vítaspyrnu, sem Pickford varði frá Danny Welbeck á 77. mínútu.

Áður hafði Pickford varið frábærlega í fyrri hálfleiknum eftir skelfilega sendingu James Tarkowski í átt að honum, og Kaoru Mitoma átt skot í þverslána eftir að hafa komist í dauðafæri, en heimamenn héldu hreinu og fögnuðu sínum fyrsta sigri á leiktíðinni.

Í Lundúnum gerðu Palace og Forest eins og fyrr segir jafntefli, í uppgjöri liðanna sem skiptu á Evrópukeppnum í sumar, eftir að Palace var dæmt til að spila í Sambandsdeildinni vegna eigendamála.

Ismaila Sarr kom Palace yfir á 37. mínútu með viðstöðulausu skoti úr miðjum vítateignum, eftir sendingu frá Daniel Munoz.

Callum Hudson-Odoi jafnaði svo á 57. mínútu eftir magnaða stungusendingu frá Dan Ndoye.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×