Íslenski boltinn

Gagn­rýna með­ferðina á Gylfa Sig: „Mér finnst þetta vera ó­skiljan­legt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var skiljanlega ósáttur við það að vera tekinn af velli.
Gylfi Þór Sigurðsson var skiljanlega ósáttur við það að vera tekinn af velli. Sýn Sport

Gylfi Þór Sigurðsson var tekinn af velli í toppslag Víkings og Breiðabliks í síðustu umferð í Bestu deild karla í fótbolta og sérfræðingar Stúkunnar gagnrýndu þá ákvörðun. Víkingar voru þá 2-1 yfir og manni fleiri en misstu leikinn niður í jafntefli eftir að Gylfi fór af velli.

Ólafur Kristjánsson, sérfræðingur Stúkunnar, fór yfir það hvernig Gylfi var mjög áberandi í öllu því góða sem Víkingarnir voru að búa til í sókninni. Hann sýndi margar góðar sendingar hjá Gylfa og nokkur ágæt skot.

„Mér fannst hann vera allt í öllu í leik Víkinga á þessum kafla. Þegar hann er tekinn út af þá veltir maður fyri sér: Var eitthvað að plaga hann,“ spurði Ólafur.

Hlýtur að vera einhver ástæða

Guðmundur Benediktsson benti á það að Gylfi hefði misst af leik á undan. „Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að þú takir Gylfa Þór Sigurðsson út af í leik þar sem þú ert einum fleiri og ætlast til þess að taka þrjú stig,“ sagði Guðmundur.

Klippa: Stúkan: Umræða um skiptinguna á Gylfa

„Og leikmyndin var eins og hún er. Ég segi ekki það að þessi sókn Blikana og þetta mark sem kemur eftir hornspyrnu sé afleiðing af því að Gylfi fór út af. Það sem gerðist fannst mér að þeir misstu svolítið tökin á þessu spili sem þeir voru búnir að ná upp,“ sagði Ólafur.

„Það komu aðrir leikmenn inn, fínir leikmenn en ekki með sömu gæði og sama auga fyrir sendingum eins og Gylfi er með,“ sagði Ólafur.

„Horfandi á þetta þá fékk ég minni trú á því að Víkingur myndi finna sigurmarkið af því að Gylfi var ekki inn á. Þá ímyndaði maður sér kannski líka aðeins að samherjarnir, trúin þeirra hefur kannski líka aðeins minnkað,“ sagði Guðmundur.

Ekkert að fara í einhvern feluleik

„Þetta eru góðar eftir á skýringar sem við getum auðvitað komið með. Ég var svolítið að bíða eftir því hvernig Sölvi myndi svara þessu. Hann talaði um að að það væri gula spjaldið. Hann tekur þessa ákvörðun sem þjálfari og svarar því bara ágætlega. Hann er ekkert að fara í einhvern feluleik með það,“ sagði Ólafur.

Gylfi var kominn með gult spjald og annað spjald hefði þýtt rautt spjald og tveggja leikja bann af því að hann er búinn að fá rautt spjald á tímabilinu.

„Þarna var möguleiki til að stinga í Blikana eins og leikmyndin var orðin. Þarna höfðu Víkingar virkilega möguleika og auðvitað vonaðist Sölvi til þess að það myndi halda áfram. Þegar maður horfir í baksýnisspegilinn á leikinn aftur og sér hvernig hann þróaðist eftir þetta þá fannst mér þá vanta leikmann með þessa sendingagetu, yfirvegun og skilning á spilinu,“ sagði Ólafur.

Þetta eru mistök hjá Sölva

Sigurbjörn Hreiðarsson tók undir þessa gagnrýni Ólafs á meðferðinni á Gylfa í þessum aðstæðum.

„Mér finnst þetta vera óskiljanlegt, algjörlega. Þetta eru mistök hjá Sölva og þjálfarateyminu að mínu viti nema að hann sé eitthvað meiddur,“ sagði Sigurbjörn.

„Hann gæti fengið gult spjald og þetta bann en þessi leikur skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er einn af úrslitaleikjunum og það er hálfur mánuður í næsta leik. Þeir leysa það ef hann fer í eitthvað leikbann,“ sagði Sigurbjörn.

Kjöraðstæður fyrir Gylfa

„Þarna verður þú bara að vinna. Þarna ertu með leikmann eins og Óli var að tala um. Í þessu mómenti, einum fleiri, ertu með kjöraðstæður fyrir Gylfa. Ég myndi alltaf segja að það er þessi leikur sem skiptir öllu máli,“ sagði Sigurbjörn.

Það má sjá allt spjallið fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×