Fótbolti

„Megum alls ekki van­meta Aserbaísjan“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ekkert vanmat verður hjá Guðlaugi Victori í leik kvöldsins.
Ekkert vanmat verður hjá Guðlaugi Victori í leik kvöldsins. vísir / bjarni

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Laugardalsvöllurinn eins og nýr, þetta er mjög spennandi og mjög mikilvægt verkefni“ sagði landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson fyrir fyrsta leikinn í undankeppni HM. Ísland mætir Aserbaísjan á Laugardalsvelli í kvöld.

Völlurinn er ekki bara eins og nýr heldur er hann bókstaflega nýr. Blendingsgras hefur verið lagt í Laugardalnum og landsliðinu líst vel á.

„Þetta er bara allt annað. Völlurinn hefur aldrei verið svona góður. Þetta er mjög tilkomumikið.“

Andstæðingur kvöldsins er ekki hátt skrifaður á styrkleikalista FIFA (117. sæti) en Guðlaugur segir hættur leynast víða í liði Aserbaísjan.

„Í fyrsta lagi, við megum alls ekki vanmeta Aserbaísjan. Þeir eru með mjög fínt lið og góðum leikmönnum sem er að spila í besta liðinu í Aserbaísjan [Qarabag] sem er komið í Meistaradeildina.

Við þurfum að einbeita okkur að því sem við ætlum að gera og gera það mjög vel, bæði með og án bolta, þá tel ég okkur eiga mjög góðan séns á að vinna þennan leik.“

Guðlaugur skipti um félag undir lok síðasta mánaðar. Hann fór fram Plymouth Argyle á Englandi og samdi við Horsens í Danmörku, enda er hann smá Dani í sér. 

„Það gekk mjög fljótt fyrir sig, þeir höfðu samband við umboðsmanninn minn, ég talaði við klúbinn og leist bara mjög vel á verkefnið. 

Ég er svona smá Dani í mér, búinn að vera þar mikið og fannst þetta rétt skref fyrir mig á þessum tímapunkti. England er mjög erfitt og með mikið af leikjum, ég er þakklátur fyrir tíma minn þar en fannst þetta var það rétta.“

Klippa: Guðlaugur Victor fyrir leikinn gegn Aserbaísjan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×