Íslenski boltinn

„Menn hafa gefið sig 110 prósent í verk­efnið“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, var ánægður eftir leik
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, var ánægður eftir leik Vísir/Diego

ÍA sigraði Vestra 0-4 á Ísafirði í dag og heldur áfram markaveislu síðustu tveggja leikja liðsins. Þrjú mikilvæg stig fyrir ÍA í farteskið og hafa þeir náð að lyfta sér upp úr fallsæti í bili allavega.

„Ég er gríðarlega ánægður með liðið í dag. Ég er ánægður með hversu mikið liðið lagði á sig. Menn voru að gefa sig alla í þetta og ég er gríðarlega stoltur af liðinu í dag,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, ánægður eftir sigur liðsins í dag.

„Við vorum með boltann nánast allan fyrri hálfleikinn. Við lokuðum á þá og þeir héldu boltanum fram. Það var ekki mikill vandræðagangur á okkur að eiga við það þannig séð. Það sem breytist svo í seinni hálfleik er að þeir koma ofar á völlinn og ná að pressa á okkur. Þá opnast fleiri svæði á vellinum fyrir okkur og við nýttum okkur það.“

„Við mætum KR á heimavelli í næstu umferð og mér líst mjög vel á það. Við töluðum um það inni í klefa að þetta er ongoing við erum ekkert búnir að halda okkur uppi með þessum sigri. Við gerum okkur grein fyrir því að það er mikil barátta eftir.“

ÍA hefur skorað þrjú til fjögur mörk í síðustu þremur leikjum og hafa fengið á sig núll til eitt mark. Liðið er á fínni siglingu og hafa sótt góð úrslit í síðustu leikjum.

„Í síðustu þremur leikjum hafa menn gefið sig 110 prósent í verkefnið. Það er gríðarleg vinnsla í leikmönnum, góð einbeiting í liðinu og ef þú skilar því þá ertu í góðum málum,“ sagði Lárus að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×