Íslenski boltinn

„Verðum að passa okkur að fara ekki í fórnar­lambs­gír“

Árni Gísli Magnússon skrifar
Óskar Hrafn, þjálfari KR, hafði margt að segja eftir leik.
Óskar Hrafn, þjálfari KR, hafði margt að segja eftir leik. Vísir/Anton Brink

KR beið lægri hlut gegn KA fyrir norðan í dag, lokatölur 4-2 fyrir þeim gulklæddu, og er KR því í fallsæti þegar fjórar umferðir eru óleiknar af neðri hlutanum eftir tvískiptingu deildarinnar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, fór ítarlega yfir leikinn og stöðu KR liðsins eftir leik.

„Mér líður auðvitað bara ekkert sérstaklega vel. Mér fannst við bara kasta leiknum frá okkur á guð má vita hvað, þriggja, fjögurra mínútna kafla í seinni hálfleik. Mér fannst við vera með fullkomna stjórn á leiknum í fyrri hálfleik og þeir svo sem sköpuðu sér ekki mikið eftir að þeir skora þriðja markið. Við getum bara ekki leyft okkur að slökkva á okkur og það skiptir engu máli í hvaða stöðu við erum, það gengur ekki í þessari deild. Og KA menn eru með gæði til að refsa okkur fyrir það en mér fannst að mörgu leyti fyrri hálfleikurinn feikilega öflugur og það er auðvitað bara eitthvað sem við verðum að taka með okkur í næsta leik.“

KA breytti um leikkerfi í hálfleik og fór í útfærslu af 3-5-2 leikkerfi sem tókst vel til þar sem KA skoraði þrju mörk gegn engu í síðari hálfleik og allt annað að sjá til liðsins. Óskar segir það ekki endilega vera ástæðuna fyrir að KR liðið spilaði illa í síðari hálfleik.

„Nei, mér fannst það ekki. Auðvitað er það þannig að þeir ná mómentinu með sér í byrjun seinni hálfleiks og hvort það var kerfið eða ekki, ég átta mig ekki á því. Þeir færa Birni (Snæ Ingason) central en hann auðvitað bara gerir annað markið mjög vel og svo er bara skyndisókn sem að skapar þriðja markið. Síðan eru þeir auðvitað bara þéttir, þeir eru fínir að verjast í fimm manna vörn og það er ekkert hlaupið að því að opna þá þar. Það þarf margt að fara saman og mér fannst við alveg fá helling af tækifærum til að gera það og til að refsa þeim en við vorum ekki nógu skarpir á síðasta þriðjung. En mér fannst helling í þessum leik sem við getum byggt á og tekið með okkur upp á Skaga.“

Auðvelt að vera vitur eftir á

Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, fór af velli vegna meiðsla í fyrri hálfleik og William Tönning kom inn á í hans stað. Tönning virkaði óöruggur og átti í vandræðum með fyrirgjafir og því spurning hvort KR hefði getað herjað meira á hann með fyrirgjöfum.

„Ég veit það ekki, það er auðvelt að vera vitur eftir á, en við erum ekkert með stærstu mennina. Þeir eru með Hans Viktor og Rodri inni í teignum sínum sem eru bara ljómandi fínir að skalla boltann frá. Við erum með heldur smávaxnari menn þannig ég átta mig ekki á því hvort það hefði verið betra. Við setjum Gyrði (Hafn Guðbrandsson) upp í lokin og það skilaði ekkert sérstaklega miklu en okkar leið hefur verið að reyna spila okkur í gegnum liðin, koma okkur á bak við lið og kannski frekar senda með fram jörðinni, sérstaklega af því við erum ekki með Eið Gauta (Sæbjörnsson). Ég svo sem sé ekkert eftir því, ég sé kannski bara eftir því að hafa ekki náð að brýna mína menn nógu vel í hálfleik. Ég sagði við þá þá að það væri okkar að tapa þessum leik, við vorum með fullkomna stjórn á leiknum, svo byrjum við ekki seinni hálfleikinn og þá endum við í eltingarleik og við náðum ekki í skottið á þeim.“

Arnar Freyr Ólafsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir KR en hann byrjaði á milli stanganna í stað Halldórs Snæs Georgssonar sem var á bekknum og segir Óskar að Arnar hafi einfaldlega átt skilið að spila leikinn í dag.

„Mér fannst Arnar bara eiga skilið að fá að byrja, hann er búinn að koma feikilega sterkur inn síðan hann kom til okkar. Búinn að vera frábær á æfingum og frábær í klefanum og mér fannst þetta bara tímapunktur til að gefa honum leik. Þegar þú stendur þig vel á æfingum þá þarf það að þýða eitthvað, þá þarftu að fá eitthvað fyrir það þannig mér fannst hann bara eiga það skilið. Það hefur ekkert að gera með Halldór þannig lagað, Arnar er bara búinn að vera góður og átti skilið að fá tækifæri.“

„Þurfum að vera stórir“

Arnar var í boltanum þegar Ingimar Stöle skoraði fyrsta mark KA langt utan af velli og spurning hvort hann hefði átt að gera betur í því tilviki.

„Jú jú, ég veit ekki hversu vel hann sá hann og hvenær hann sá hann, það er hægt að finna að öllu. Ég hef sagt það áður að við fáum á okkur mörk saman og skorum mörk saman og ég ætla ekki að fara finna einhverja sökudólga hér. Mögulega hefði hann getað gert betur en hvort hann sá hann seint eða hvernig það var, það er bara hlutur sem gerist. Þetta er ekki fyrsta soft markið sem við fáum á okkur sumar þannig það er bara eins og það er. Þegar þú ert í þessari stöðu þá svona fellur fæst með þér, laflaust skot með fram jörðinni utan teigs, hversu oft lekur það inn?

En það gerði það í dag en við verðum hins vegar að passa okkur á því að fara ekki í einhvern fórnarlambsgír, við erum enn þá með þetta í okkar höndum. Við þurfum að vera stórir núna, það er rosalegt auðvelt að verða lítill í sér og fara vorkenna sjálfum sér og finnast allt vera ósanngjarnt og ómögulegt en það er alls ekki þannig. Það er helling sem við getum tekið út úr þessum leik og farið með upp á Skaga og það er það sem við þurfum að gera.“

KR mætir ÍA upp á Skaga í líklega mikilvægasta leik tímabilsins hingað til en ÍA er aðeins stigi á undan KR.

„Ég hlakka mikið til að mæta Skagamönnum, þeir eru búnir að kúvenda leikstílnum sínum frá því við mættum þeim síðast. Nú stíga þeir hátt upp á lið og hafa verið að ná mjög góðum úrslitum, eru sjóðandi heitir. Þannig ég hlakka bara mikið til að mæta þeim á þann hátt og á sama tíma og ég ber mikla virðingu fyrir Skagaliðinu og því skriði sem þeir eru á, að þá verð ég að fara þarna upp eftir og gera allt sem ég get til að ná í þrjú stig“, sagði Óskar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×