Enski boltinn

Haaland sýndi morð­hótun eftir að hafa náð Sol­skjær

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland afklæddist eftir slaginn við Arsenal í gær.
Erling Haaland afklæddist eftir slaginn við Arsenal í gær. Getty/Marc Atkins

Markið sem Erling Haaland skoraði gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær var sögulegt. Ekki gátu þó allir samglaðst þessum 25 ára Norðmanni sem birti skjáskot af morðhótun sem honum barst.

Haaland kom City yfir snemma leiks í gær, í 1-1 jafnteflinu við Arsenal, og jafnaði þar með markafjölda Ole Gunnar Solskjær í ensku úrvalsdeildinni. Þeir eru nú með 91 mark hvor og ljóst að aðeins er tímaspursmál hvenær Haaland verður markahæsti Norðurlandabúinn í sögu deildarinnar. Þess má geta að Gylfi Þór Sigurðsson er í þriðja sæti á þeim lista með 67 mörk.

Eftir leikinn í gær deildi Haaland hins vegar mynd með skjáskoti sem var öllu minna gleðitilefni, og skrifaði sjálfur: „Fæ líka morðhótanir núna“.

Í skilaboðunum stóð: „Passaðu þig núna, félagi. Ekki voga þér að birta meira á Snapchat, annars ertu búinn að vera.“

Haaland er þó vís til að láta þetta ekki stöðva sig í næstu leikjum en mörkin 91 sem hann hefur nú skorað komu í aðeins 102 deildarleikjum. Til samanburðar þá skoraði Solskjær sín mörk í 235 leikjum.

„Þetta var fínt mark. Sendingin kom á fullkomnum tímapunkti frá Tijjani. Ég öskraði „bíddu, bíddu, bíddu!“ svo að ég gæti komið mér í betri stöðu og sendingin var fullkomin. Þetta var flott mark,“ sagði Haaland um markið sitt í gær, í viðtali við Viaplay.

Hann á enn langt í land með að ná markahæsta manni í sögu deildarinnar, Alan Shearer, sem skoraði 260 mörk á sínum tíma.

Athygli vakti að Haaland skyldi tekinn af velli korteri fyrir leikslok í gær, í stöðunni 1-0, en Pep Guardiola sagði það vera vegna mikilla bakverkja sem væru að angra Norðmanninn. Hann fengi núna smáhvíld fram að næstu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×