Golf

Trump missir ekki trúna: „Við munum klára þetta“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Donald Trump hefur ekki misst trúna á liði Bandaríkjanna.
Donald Trump hefur ekki misst trúna á liði Bandaríkjanna. Mandel Ngan-Pool/Getty Images

Donald Trump er mættur á Ryder bikarinn, fyrstur Bandaríkjaforseta, til að styðja lið Bandaríkjanna til sigurs gegn Evrópu. Hann hefur ekki misst trúna þrátt fyrir erfiðan morgun hjá bandaríska liðinu.

Trump mætti á svæðið rétt áður en síðdegiskeppnin hófst, ásamt barnabarni sínu Kai Trump sem stefnir á að spila golf fyrir háskólann í Miami.

Stemningin var ekkert stórkostleg meðal Bandaríkjamanna því staðan var þá 3-1 fyrir Evrópu eftir fjórar viðureignir í fjórmenningi um morguninn. Xander Schaufelle og Patrick Cantlay björguðu stigi fyrir Bandaríkin í síðustu viðureigninni.

„Ég hef á tilfinningunni að hlutirnir muni snúast hérna“ sagði fyrirliði Bandaríkjanna, Keegan Bradley, þegar hann sá flugherinn fljúga yfir svæðið til að boða komu Trump.

Áhorfendaskarinn hresstist líka við að sjá þjóðarleiðtogann og Trump fullvissaði fólk um að Bandaríkin myndu vinna mótið.

„Við munum klára þetta, á einn veg eða annan, við munum klára þetta“ sagði Trump við blaðamenn eftir mikilfengnar móttökur.

Forsetinn leiddi síðan Bryson DeChambeau og Ben Griffin, kylfinga Bandaríkjanna út í síðdegiskeppnina, sem er tiltölulega nýhafin og er í beinni útsendingu á Sýn Sport 4.

Trump er fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem mætir á Ryder bikarinn. Varaforsetinn Dan Quayle mætti á keppnina sem var kölluð „stríðið við ströndina“ árið 1991, en lét lítið fyrir sér fara og vildi ekki draga að sér athygli.

Þáverandi forseti, George H.W. Bush var mikill golfáhugamaður en horfði á keppnina í Hvíta húsinu og mætti ekki sjálfur fyrr en eftir að forsetatíðinni lauk.

Þá hafa Bill Clinton og Barack Obama boðið sigurliðum Bandaríkjanna í heimsókn í Hvíta húsið, líkt og Donald Trump mun líklega gera ef liðinu tekst að snúa taflinu við.

Ryder bikarinn er í beinni útsendingu á Sýn Sport 4. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×