Íslenski boltinn

Ræddu brott­hvarf Davíðs: „Þetta er eins og köld vatns­gusa“

Sindri Sverrisson skrifar
Davíð Smári Lamude náði einstökum árangri sem þjálfari Vestra sem vann sinn fyrsta stóra titil undir hans stjórn.
Davíð Smári Lamude náði einstökum árangri sem þjálfari Vestra sem vann sinn fyrsta stóra titil undir hans stjórn. vísir/Diego

Sérfræðingar Stúkunnar fengu þær fréttir nánast í beinni útsendingu í gærkvöld að Davíð Smári Lamude væri hættur sem þjálfari bikarmeistara Vestra í fótbolta. Fréttirnar komu þeim í opna skjöldu.

„Hún hefur lengst ansi mikið þessi bikarþynnka hjá þeim og einkenni liðsins hrunið af þeim, því miður fyrir þá. En maður veit ekkert hvað hefur gengið á á bakvið tjöldin,“ sagði Ólafur Kristjánsson í Stúkunni í gærkvöld en umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Stúkan ræddi brotthvarf Davíðs Smára

Eins og fram kom í Stúkunni í gær hefur Vestri aðeins fengið eitt stig úr síðustu sex leikjum í Bestu deildinni, og fengið á sig tuttugu mörk í þessum leikjum. Áður hafði liðið fengið 26 stig úr 18 leikjum og aðeins 17 mörk á sig.

„Hætti hann? Var hann látinn taka pokann? Hvað gerðist?“ velti Arnar Grétarsson fyrir sér. Hann sagði árangur bikarmeistara Vestra, sem var í Lengjudeild þegar Davíð tók við liðinu, benda til þess að hann hefði sjálfur ákveðið að stíga frá borði:

„Þetta er gæi sem kemur þarna og er búinn að gera flotta hluti; koma þeim upp og gera þá að bikarmeisturum. Þeir eru fyrir ofan fallsæti. Ég myndi því ætla að hann hafi ekki verið látinn taka pokann sinn. Það kæmi mér verulega á óvart ef það væri niðurstaðan. En maður er bara að fabúlera og veit ekki hvað hefur gerst,“ sagði Arnar en síðasti leikur Vestra undir stjórn Davíðs var 5-0 tap á heimavelli gegn ÍBV.

„Þetta kemur rosalega á óvart. Ef maður hlustar á viðtalið við hann eftir leik þá er hann að tala um að einhverjir leikmenn hafi kannski ekki verið alveg að standa sína plikt. Talar svo mikið um „okkur“. „Við“ þurfum að biðla til fólksins sem er að styðja okkur. Svo fáum við bara þessar fréttir,“ sagði Ólafur.

Hann benti á að samband Davíðs og Samúels Samúelssonar, formanns meistaraflokksráðs Vestra, hefði ávallt virst hnökralaust út á við:

„Þannig að þetta kemur gríðarlega á óvart. Við sjáum að eftir bikarúrslitaleikinn hefur heldur betur sigið á ógæfuhliðina en ég tek undir með Adda um að það er erfitt að vera að fabúlera eitthvað. Þetta er eins og köld vatnsgusa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×