Fótbolti

Engar leyni­legar við­ræður í gangi um fram­tíð Meistara­deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Akanji og Erling Haaland með Meisataradeildarbikarinn.
Manuel Akanji og Erling Haaland með Meisataradeildarbikarinn. Getty/Tom Flathers

Knattspyrnusamband Evrópu hafnar þeim fréttum að breyta eigi Meistaradeildinni á ný í næstu framtíð eftir viðræður á milli yfirstjórnar evrópskrar knattspyrnu og Ofurdeildarinnar þar sem breytingar á keppninni voru ræddar.

Um helgina sagði spænska blaðið Mundo Deportivo frá því að á undanförnum mánuðum hefði UEFA fundað nokkrum sinnum með A22, fyrirtækinu á bak við Ofurdeildarverkefnið, og fulltrúum Real Madrid og Barcelona.

Á fundunum hefðu verið ræddar mögulegar umbætur til að færa Meistaradeildina nær ofurdeildarlíkaninu, þar á meðal fleiri leikir milli „stórra“ félaga og að leikir væru í opinni dagskrá. Á mánudag staðfesti heimildarmaður náinn í ofurdeildarverkefninu við ESPN að viðræður hefðu átt sér stað við UEFA.

„Við getum staðfest fréttir um að [aðalritari UEFA] Theodore Theodoridis hafi fundað með [meðstofnanda A22] hr. Anas Laghrari nokkrum sinnum,“ sagði UEFA í yfirlýsingu til ESPN.

„Þessir fundir fóru fram á opinberum vettvangi og allar fullyrðingar um að þeir hafi verið „leynilegir“ eru algjörlega rangar. Engar formlegar niðurstöður komu út úr þessum samtölum. Við ítrekum afdráttarlaust að engin áform eru um að breyta fyrirkomulagi Meistaradeildar UEFA.“

Núverandi fyrirkomulag Meistaradeildarinnar var tekið upp fyrir tímabilið 2024-25, þegar gamla riðlakeppnin var lögð af og deildarkeppni tekin upp með 36 liðum.

Á laugardag greindi Mundo Deportivo frá því að eftir röð funda með UEFA á undanförnum mánuðum væri Ofurdeildin nú að leggja til málamiðlun, með breytingum á Meistaradeildinni frá 2027.

Keppnin myndi halda nafninu „Meistaradeildin“, að því er fram kemur í fréttinni, og þeim 36 liðum sem taka þátt yrði skipt í tvo riðla samkvæmt styrkleikaröðun UEFA fyrir deildarkeppnina, sem tryggir fleiri viðureignir milli efstu liða.

Samkvæmt svari UEFA eru engar slíkar breytingar í farvatninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×