Innlent

Glæsi­leg Regnbogahátíð í Vík alla helgina

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Regnbogahátíðin er nú haldin í 19. sinn í Mýrdalshreppi um helgina.
Regnbogahátíðin er nú haldin í 19. sinn í Mýrdalshreppi um helgina. Helga Þorbergsdóttir

Það iðar allt af lífi og fjöri þar sem gleðin er í fyrirrúmi í Vík í Mýrdal um helgina því þar fer fram Regnbogahátíð, sem er samfélagshátíð íbúa í Mýrdalshreppi.

Regnbogahátíðin er nú haldin í 19. sinn og hefur dagskrá hátíðarinnar sjaldan verið eins glæsileg og í ár. Hátíðin hófst á fimmtudaginn og líkur með tónleikum síðdegis á morgun.

Harpa Elín Haraldsdóttir hjá Kötlusetrinu í Vík er sú, sem veit allt um Regnbogahátíðina.

„Þemað í ár er einmitt gleðin og krafturinn, sem býr í samfélaginu þannig að þú getur ímyndað þér hvað það er gaman hjá okkur hérna“, segir Harpa Elín.

Og hvað eruð þið aðallega að gera á þessari hátíð?

„Við erum að hittast og vera saman og búa til samfélag og hafa gaman saman,“ segir hún.

Í gærkvöldi var til dæmis boðið upp á matarsmakk í íþróttahúsinu þar sem gestir fengu að smakka á réttum frá mörgum þjóðlöndum en stór hluti íbúa í Vík eru af erlendu bergi brotnir.

„Svo ætlar hún að koma til okkar hún Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, Stása en hún ætlar að taka helgistund og samverustund með séra Jóhönnu í kirkjunni okkar en Yuichi Yoshimoto mun spila undir hjá henni á píanó en það er tónlistarkennarinn okkar og mikill snillingur,“ segir Harpa Elín.

Harpa Elín Haraldsdóttir hjá Kötlusetrinu í Vík er sú, sem veit allt um Regnbogahátíðina og heldur m.a. utan um dagskrá hátíðarinnar.Helga Þorbergsdóttir

Ari Eldjárn lýkur svo deginum með uppistandi í kvöld og strax á eftir verður Regnbogasamsöngur íbúa.

Dagskráin verður líka mjög fjölbreytt á morgun sunnudag en Kammerkór tónlistarskólans í Vík mun syngja í Icewear og Jónas Erlendsson bóndi í Fagradal við Vík mun bjóða upp á göngu að steinskipinu svo eitthvað sé nefnt.

„Svo á Hótel Kríu er hinn klassíska hátíðarstunda en þá verður glæsilegt hátíðarkaffi, sem hótelin hérna skiptast á að bjóða hátíðargestum á,“ segir Harpa Elín hjá Kötlusetrinu í Vík um leið og hún bætir við að síðasta atriði Regnbogahátíðarinnar verður klukkan fimm á morgun í Víkurkirkju þar sem Kammerkór tónlistarskóla Mýrdalshrepps, Björn Thoroddsen gítarleikari og Hera Björk Þórhallsdóttir verða með fría tónleika.

Gleðin verður við völd í Vík í Mýrdal um helgina, því lofar Harpa Elín. Helga Þorbergsdóttir

Facebooksíða hátíðarinnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×