Upp­gjörið: Valur-Ármann 94-83 | Vals­menn í vand­ræðum með nýliðana

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
valur guðmundur
vísir/Guðmundur

Valsmenn fögnuðu sínum fyrsta sigri í Bónus-deild karla í körfubolta í vetur en lentu þó óvænt í vandræðum með nýliða Ármanns sem höfðu steinlegið í fyrstu tveimur leikjum sínum.

Valur vann á endanum ellefu stiga sigur, 94-83, eftir að hafa verið þremur stigum yfir í hálfleik 44-41.

Valur náði fimmtán stiga forskoti í öðrum leikhluta en Ármann gerði gríðarlega vel að vinna sig aftur inn í leikinn. Allt var jafnt fyrir fjórða leikhluta en Valur sigldi þá fram úr og hafði á endanum níu stiga sigur.

Bæði lið voru á eftir sínum fyrsta sigri og Ármenningar voru um tíma með forystuna. Valsmenn voru sterkari í lokin og unnu á endanum nokkuð öruggan sigur.

Ármann tók uppkastið og þaut af stað í fyrstu sókn leiksins. Þeir komust á vítalínuna strax og settu fyrstu stig leiksins af vítalínunni. Það var kraftur í nýliðunum í upphafi en um miðjan leikhluta snéri Valur leiknum sér í hag og voru með yfirhöndina. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-18.

Valur hélt áfram skrefinu á undan í upphafi annars leikhluta og sóttu sér fimmtán stiga forskot áður en langt um leið. Ármann lögðu þó ekki árar í bát og unnu hörðum höndum að því að vinna sig aftur inn í leikinn. Sjálfstraustið óx með hverri sókn og hverju stoppi og gestirnir náðu að jafna leikinn stuttu fyrir hálfleik. Frank Aron Booker setti svo þrist þegar rúmlega mínútu var eftir af leikhlutanum og það reyndist vera það sem skildi á milli í hálfleik, staðan 44-41.

Ármann opnaði þriðja leikhluta á þrem þristum í röð. Dibaji Walker var að hitta hrikalega vel ásamt Braga Guðmundssyni. Það var stemning að myndast með hverri sókn hjá Ármanni og átti Valur í fullu fangi með að halda í við nýliðana. Bæði lið voru að hitta hrikalega vel fyrir aftan þriggja stiga línuna og var allt hnífjafnt eftir þrjá leikhluta 64-64.

Í fjórða leikhluta fann Valur orku sem nýliðarnir gátu ekki jafnað. Tveir þristar með stuttu millibili í upphafi leikhlutans gaf þeim andrými til að stilla saman strengi og að lokum klára þennan leik með níu stiga mun 94-83.

Atvik leiksins

Valur setti tvo þrista í upphafi fjórða leikhluta sem Ármann náði ekki að svara.

Ármann sýndi frábæran karakter í öðrum leikhluta að koma til baka eftir að hafa lent fimmtán stigum undir og unnið sig inn í leikinn aftur. Það verður að fá hrós líka.

Stjörnur og skúrkar

Frank Aron Booker var frábær í liði Vals í kvöld. Var með tvöfalda tvennu, 24 stig og 12 fráköst. 

Kári Jónsson dældi út stoðsendingum og var með fjórtán slík stykki.

Hjá Ármann var Dibaji Walker öflugur í liði Ármanns og endaði stigahæstur á vellinum með 34 stig. 

Dómararnir

Dómarar leiksins voru Jóhannes Páll Friðriksson, Eggert Þór Aðalsteinsson og Daníel Steingrímsson.

Ekki frábært en ekkert hræðilegt heldur. Ármann fékk stundum að finna að þeir væru litla liðið sérstaklega í upphafi en það jafnaðist út eftir því sem á leið.

Stemingin og umgjörð

Það verður seint sagt að það hafi verið þröngt á þingi hér í N1 höllinni en fullt kredit á þau sem lögðu leið sína í N1 höllina í kvöld. Stemningin oft verið betri en umgjörðin hjá Val er alltaf mjög góð.

Viðtöl

Finnur Freyr Stefánsson þjáflari Vals.Vísir / Guðmundur

„Frammistaðan hefði mátt vera betri“

„Við náum ágætis forystu þarna í fyrri hálfleik en svo slökknar bara á okkur og við höldum að þetta sé komið“ sagði Finnur Freyr Stefánsson þjáflari Vals eftir leik í kvöld.

„Ármenningar eru bara allt annað lið með Walker í liðnu, hann var frábær hérna í kvöld og mikill gæða leikmaður sem erfitt er að eiga við. Þeir gerðu bara vel og við frusum á löngum köflum í leiknum en sem betur fer náðum við einhverjum mómentum og náðum að finna lausnir og náum að sigla þessu heim“

Leikurinn var í járnum lengst af og var jafn eftir þrjá leikhluta en Valur sveif svo fram úr undir lokin og hafði á endanum níu stiga sigur.

„Reynslan á því að vera í svona mómentum, ég held að það sé aðalega það“ sagði Finnur Freyr aðspurður um hvað hafi á endanum siglt þessu yfir línuna. 

„Þeir eru kannski búnir að spila mikið á sama liðinu en það voru þarna nokkur móment, nokkur stopp og nokkrar körfur. Heilt yfir ánægður með að ná í sigur eftir að við töpum fyrstu tveim leikjunum en frammistaðan hefði mátt vera betri“ sagði Finnur Freyr Stefánsson.

Steinar Kaldal þjálfari ÁrmannsVísir/Anton

„Sá mikla bætingu í kvöld en það er svekkjandi að missa þetta niður“

„Við erum búnir að bæta okkur leik frá leik og fáum nátturlega inn Dibaji Walker í þennan leik og það munar um hvern einasta leikmann“ sagði Steinar Kaldal þjálfari Ármanns eftir leik í kvöld.

„Ég sá mikla bætingu í kvöld en það er svekkjandi að missa þetta niður þarna á einhverjum þremur, fjórum mínútum í fjórða leikhluta en heilt yfir þá er ég bara nokkuð sáttur“

Ármann lenti fimmtán stigum undir í öðrum leikhluta en gerðu frábærlega að koma til baka og sýndu frábæran karakter.

„Þeir voru að tæta okkur í sundur í sókninni og við vorum varnarlega ekki að bregðast við því sem að þeir voru að gera svo við tókum leikhlé og fórum yfir ákveðna hluti og menn komu bara sterkir inn úr leikhléinu og lögðu sig alla fram, um það snýst þetta“

Leikurinn var jafn eftir þrjá leikhluta en nýliðarnir misstu leikinn frá sér undir restina og enduðu á að tapa með níu stiga mun.

„Við erum að spila á tilturlega fáum mönnum. Ég tók eftir því að menn urðu bara smá þreyttir þarna og hættu að stíga út og fóru að taka erfið skot og í raun ótímabær skot í staðin fyrir að gefa auka sendinguna, fórna sér í vörn og boxa út. Það eru ákveðin þreytumerki þarna sem skilar þeim forystu og þeir eru virkilega gott lið og notfæra sér þetta“ sagði Steinar Kaldal.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira