Handbolti

Fórnaði frægasta hári hand­boltans

Sindri Sverrisson skrifar
Mikkel Hansen vann öll sín helstu afrek með sítt hár og ennisband. Nú hefur hann rakað allt hárið af, fyrir pabba sinn og öll þau sem greinst hafa með krabbamein.
Mikkel Hansen vann öll sín helstu afrek með sítt hár og ennisband. Nú hefur hann rakað allt hárið af, fyrir pabba sinn og öll þau sem greinst hafa með krabbamein. Samsett/Getty/Instagram

Fyrrverandi handboltastjarnan Mikkel Hansen þekkir margt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Pabbi hans er þar á meðal. Hansen hefur nú rakað af sér líklega þekktasta hár handboltasögunnar, til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini.

Hinn tæplega 38 ára gamli Hansen var þrívegis kjörinn besti handboltamaður heims og vann til fjölda verðlauna á sínum ferli, þar á meðal tvo Ólympíumeistaratitla, þrjá heimsmeistaratitla og Evrópumeistaratitil með danska landsliðinu.

Öll sín helstu afrek vann hann með sítt hár og ennisband en nú hefur hárið fengið að fjúka, í þágu góðs málstaðar, eins og sjá má hér að neðan.

Samkvæmt TV 2 greinast um 130 Danir með krabbamein á hverjum degi og eru næstum 400.000 Danir annað hvort með krabbamein í dag eða hafa áður verið með krabbamein. Kræftens Bekæmpelse, sem líkja má við Krabbameinsfélagið á Íslandi, stendur fyrir þriggja vikna átaki á hverju ári sem nær hápunkti með beinni sjónvarpsútsendingu 25. október.

„Fyrir Kai, fyrir mömmu Silas og Sannavahs, fyrir Rigmor og Paul, fyrir kennarann í 3. B, fyrir Navid, fyrir Jakob, fyrir Kathrine og fyrir pabba minn,“ segir Hansen í myndbandinu hér að ofan, sem sýnir þegar hann rakaði hárið af.

„Það er mér mikilvægt að styðja við svona mál sem snertir svo marga. Þetta tekur ekki bara á manneskjuna sem veikist heldur alla fjölskylduna og alla í kring,“ segir Hansen.

Pabbi hans greindist með krabbamein í annað sinn árið 2022, skömmu eftir að Hansen hafði sjálfur fengið blóðtappa í lungu.

Hansen lagði handboltaskóna á hilluna í fyrra eftir einstakan feril. Hann var valinn besti handboltamaður heims árin 2011, 2015 og 2018, og hefur nú þegar verið tekinn inn í frægðarhöll Handknattleikssamband Evrópu vegna afreka sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×