Enski boltinn

Vildi ekki að börnin sín myndu alast upp í Eng­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonjo Shelvey með eiginkonu sinni og tveimur af börnum þeirra þegar hann var leikmaður Liverpool.
Jonjo Shelvey með eiginkonu sinni og tveimur af börnum þeirra þegar hann var leikmaður Liverpool. Getty/John Powell

Fyrrum leikmaður Liverpool er nú að spila í C-deildinni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og fullvissar alla um það í nýju viðtali að hann sé ekki kominn til Dúbaí vegna peninganna.

Jonjo Shelvey spilaði 278 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Newcastle United, Liverpool, Swansea City og Nottingham Forest.

Breska ríkisútvarpið elti Shelvey upp til Sameinuðu arabísku furstadæmanna þar sem hann var að spila sinn síðasta leik fyrir kannski 75 áhorfendur. Nýverið fór myndband á flug á netinu þar sem Shelvey sést klikka á vítaspyrnu.

Miðjumaðurinn fullyrti þó að honum væri „alveg sama“ eftir að myndskeið af spyrnunni sem hann klúðraði á Jebel Ali Shooting Club fékk milljón áhorf á samfélagsmiðlum.

Truflar mig ekki

„Það truflar mig ekki,“ sagði hann. „Ég hef síðan séð nokkur ummæli eins og „hann fór þangað fyrir peninga“. Ég hugsa með mér: „Hvaða peninga? Það eru engir peningar í annarri deild SAF,“ sagði Shelvey.

„Hérna eru meðallaun fótboltamanns um tvö þúsund pund á mánuði. Miðað við það sem ég hef þénað á ferlinum er það ekki neitt. Bróðir minn þénar meira við að vinna á hóteli í London, svo það var aldrei út af peningunum sem ég kom hingað,“ sagði Shelvey.

Hvernig gerðist þetta?

Tvö þúsund pund eru um 327 þúsund íslenskar krónur. En hvers vegna endaði Shelvey á því að spila í þriðju efstu deild í SAF?

Eftir misheppnaða reynslu hjá Hull City meiddist samningslausi leikmaðurinn aftan í læri sem flækti möguleika hans á að tryggja sér samning yfir sumarið. Harry Agombar, stjóri Arabian Falcons, hafði samband og bað æskuvin sinn um að flytja til Dúbaí til að hjálpa við að „byggja upp félagið“.

Byrjaði upp á nýtt

Þrátt fyrir að fjölskylda Shelveys hefði lengi verið búsett í Tyneside, jafnvel eftir að hann yfirgaf Newcastle árið 2023, sá þriggja barna faðirinn þetta sem tækifæri til að „byrja upp á nýtt“.

„Ég er búinn að eiga minn tíma. Ég er ánægður og sáttur. Ég er bara kominn á þann stað núna að ég vil njóta fótboltans. Þetta snýst um að vakna, njóta þess sem ég geri og eyða tíma með fjölskyldunni,“ sagði Shelvey.

„Ef ég á að vera hreinskilinn vil ég ekki að börnin mín alist upp í Englandi lengur. Við erum mjög heppin að hafa búið í góðum hluta Bretlands en þar sem ég er upphaflega frá getur maður ekki átt flotta hluti að mínu mati. Ég myndi aldrei ganga með úr í London lengur. Maður getur ekki verið með símann sinn á lofti í London, að mínu mati,“ sagði Shelvey.

Það má lesa allt viðtalið við hann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×