Handbolti

Hjarta­vanda­mál halda Reyni frá keppni

Sindri Sverrisson skrifar
Reynir Þór Stefánsson (t.v.) smellir kossi á bikarinn eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Fram í vor. Þar var hann í algjöru lykilhlutverki.
Reynir Þór Stefánsson (t.v.) smellir kossi á bikarinn eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Fram í vor. Þar var hann í algjöru lykilhlutverki. vísir/Anton

Handboltamaðurinn Reynir Þór Stefánsson átti algjört draumavor þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik, var lykilmaður í tvöföldu meistaraliði Fram og samdi svo við þýska félagið Melsungen. Hann hefur hins vegar ekkert getað spilað með Melsungen vegna hjartavandamála.

Um þetta fjallar þýski miðillinn Bild og segir enn óljóst hvenær Reynir geti snúið aftur á handboltavöllinn. 

Bild segir að á undirbúningstímabilinu hafi Reynir verið greindur með gollurhússbólgu og bendir á að sé ekkert að gert geti það haft grafalvarlegar afleiðingar. Eftir greininguna hafi Reyni verið bannað að æfa og keppa.

Þegar mynda átti Reyni hafi annað vandamál komið upp því hann hafi um árabil verið með málmplötu í bringubeininu. Fjarlægja hafi þurft plötuna til að hægt yrði að senda hann í segulómun.

Bild segir að Reynir hafi þurft að halda sig við æfingar á þrekhjóli, undir eftirliti hjartalæknis.

Búist sé við því að í desember fari Reynir í próf til að ganga úr skugga um að hann geti snúið aftur á liðsæfingar, og í kjölfarið smám saman farið að snúa aftur til keppni standist hann öll próf til þess.

Reyni, sem er aðeins tvítugur, er ætlað stórt hlutverk hjá Melsungen sem tryggði sér krafta hans eftir að ljóst varð að Elvar Örn Jónsson færi til Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×