Íslenski boltinn

Leyndar­máli ljóstrað upp þegar Heimir og Björn kvöddu

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Guðjónsson og Björn Daníel Sverrisson hafa ritað nöfn sín stóru letri í sögu FH.
Heimir Guðjónsson og Björn Daníel Sverrisson hafa ritað nöfn sín stóru letri í sögu FH. Skjáskot/Sýn Sport

Heimir Guðjónsson og Björn Daníel Sverrisson, svo sannarlega goðsagnir í fótboltasögu FH, fluttu hvor um sig kveðjuræðu eftir að tíma þeirra hjá FH lauk í gær. Heimir talaði mögulega svolítið af sér í sinni ræðu.

Ræðurnar má sjá hér að neðan en þeim Heimi og Birni var ákaft fagnað.

Heimir talaði um hve stemningin hjá stuðningsmönnum hefði verið sérstaklega góð í sumar og rifjaði upp þegar þeim Dean Martin, aðstoðarþjálfara ÍA, lenti saman í Kaplakrika í ágúst.

Báðir fengu rautt spjald en Heimir sagðist þá – og viðurkenndi að hann ætti nú líklega ekki að ljóstra því upp – reyndar hafa falið sig og haldið hálfleiksræðuna fyrir sína menn engu að síður. Hún virðist hafa virkað því FH var 2-1 undir og vann mikilvægan 3-2 sigur. Heimir sat svo hjá vallarþulnum Friðriki Dór í seinni hálfleik, horfði niður í stúkuna og hugsaði með sér að stemningin minnti á gömlu góðu tímana.

Björn Daníel þakkaði kærlega fyrir sig og sagðist sérstaklega þakklátur fyrir að þurfa ekki aftur að taka „þæfingar“ á hverjum einasta degi, undir stjórn Heimis. „Ég er hættur að hlaupa,“ sagði Björn Daníel léttur en hér að neðan má sjá ræðuna hans.

Heimir er sagður vera að taka við Lengjudeildarliði Fylkis sem mun kynna sinn nýja þjálfara til leiks klukkan 17 á morgun.

Björn Daníel ætlar að snúa sér að þjálfun og hefur verið sagður ætla að taka við Sindra á Hornafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×