Íslenski boltinn

FH bíður með að til­kynna nýjan þjálfara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefnir allt í að Jóhannes Karl Guðjónsson verði næsti þjálfari FH.
Stefnir allt í að Jóhannes Karl Guðjónsson verði næsti þjálfari FH. Getty/Alex Nicodim

FH hefur ákveðið að bíða með að tilkynna nýjan þjálfara en stefnt var að því að kynna arftaka Heimis Guðjónssonar nú áður en nóvember hefst. Frestunin gerir það að verkum að komið verður vetrarfrí í danska boltanum þegar tilkynningin loks berst.

Það var ljóst áður en nýafstaðinni leiktíð í Bestu deild karla lauk að Heimir Guðjónsson yrði ekki áfram við stjórnvölin. Hann hefur nú þegar fundið sér nýjan samastað og mun þjálfa Fylki í Lengjudeildinni á komandi leiktíð.

FH er hins vegar enn án þjálfara þó Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, hafi tilkynnt Fótbolti.net það í byrjun október að nýr þjálfari yrði tilkynntur áður en október væri á enda.

Nú hefur Davíð Þór dregið þá yfirlýsingu til baka, einnig í viðtali við Fótbolti.net. Hann segir „ytri aðstæður“ geri það að verkum að ekki sé hægt að tilkynna um nýjan þjálfara fyrr en um miðjan nóvember.

Sú dagsetning passar vel við vetrarfrí danska fótboltans en það virðist nær klappað og klárt að Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari AB í dönsku C-deildinni og fyrrverandi aðstoðarþjálfari íslenska A-landsliðs karla, verði næsti þjálfari FH.

Jóhannes Karl og lærisveinar hans eiga þrjá leiki eftir fyrir vetrarfrí. AB er um þessar mundir á toppi deildarinnar með 30 stig að loknum 13 leikjum. Ægir Jarl Jónasson er leikmaður liðsins og þá lék Ágúst Eðvald Hlynsson með liðinu áður en hann gekk til liðs við Vestra um mitt sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×