Lífið

Láta forræðis­hyggju hinna full­orðnu ekki fipa sig

Eiður Þór Árnason og Smári Jökull Jónsson skrifa
Það var mikið líf í Fossvogsskóla í kvöld.
Það var mikið líf í Fossvogsskóla í kvöld. Sýn

Í dag fór fram hrekkjavaka og var henni fagnað víða þar sem börn klæða sig í búninga og ganga í hús í leit að sælgæti. Veðurspá setti áætlanir úr skorðum en veðrið truflaði ekki krakkana á hrekkjavökuballi í Fossvogi í Reykjavík.

Það var vissulega blautt og hált utandyra og af þeim aðstæðum var ákveðið í ýmsum hverfum og bæjarfélögum að bíða með það að leyfa börnum að ganga í hús og betla nammi þar til um helgina.

Tóku krakkar misjafnlega í þetta þar sem hefð er fyrir því að halda upp á þennan sið þann 31. október. Því eru dæmi um að börn hafi samt sem áður gengið í hús í Fossvogi og sótt sitt góðgæti.

Fjörið var allsráðandi á hrekkjavökuballinu í Fossvogsskóla í kvöld og mátti þar sjá krakka bregða sér í allra kvikinda líki, þeirra á meðal banana og illa farinnar dúkku.

Viðmælendur fréttastofu tóku ekki illa í það að fresta nammigöngunni fram á morgundag en hún væri jú eitt það skemmtilegasta við daginn.

„Mér fannst það ekki það slæmt því þá get ég mætt á ballið og farið að sníkja á morgun,“ sagði Elma í kvöldfréttum Sýnar.

Hvað eruð þið að vonast til að fá mikið nammi á morgun?

„Rosa mikið. Bara eins mikið og hægt er,“ sagði Lára Berglind. Því er ljóst að fjörinu er hvergi nærri lokið hjá ógnvænlegu krökkunum í Fossvogsskóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.