Enski boltinn

Úlfarnir ráku Pereira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vitor Pereira gengur af velli eftir síðasta leik sinn sem knattspyrnustjóri Wolverhampton Wanderers.
Vitor Pereira gengur af velli eftir síðasta leik sinn sem knattspyrnustjóri Wolverhampton Wanderers. Getty/ Dan Istitene

Vítor Pereira stýrði Wolves í síðasta sinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær þegar liðið steinlá 3-0 á móti Fulham. Úlfarnir tilkynntu í dag að knattspyrnustjórinn hafi verið rekinn frá félaginu.

Pereira fékk nýjan þjálfarasamning í september sem var í gildi til sumarsins 2028 en á þeim tímapunkti voru Úlfarnir án stiga eftir fjóra leiki. Síðan þá hefur árangurinn ekki batnað og liðið situr án sigurs í botnsæti deildarinnar með tvö stig eftir tíu leiki.

Wolves sló West Ham og Everton út úr enska deildabikarnum á þessu tímabili en datt út í sextán liða úrslitum á móti Chelsea á miðvikudaginn.

Pereira var ráðinn í desember á síðasta ári. Hann lyfti liðinu úr nítjánda sæti í það sextánda og forðaði því frá falli.

Wolves hefur verið í ensku úrvalsdeildinni síðan 2018 en það verður erfitt verkefni fyrir eftirmann Pereira að sjá til þess að það breytist ekki.

Fjórir knattspyrnustjórar hafa verið reknir í efstu deild Englands það sem af er tímabili. Tveir þeirra voru hjá Nottingham Forest (Nuno Espírito Santo og Ange Postecoglou), á meðan Graham Potter missti starfið hjá West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×