Enski boltinn

Ógnaði leik­manni Tottenham með byssu út á götu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Destiny Udogie er á sínu þriðja tímabili með Tottenham Hotspur en hann kom til félagsins frá Hellas Verona.
Destiny Udogie er á sínu þriðja tímabili með Tottenham Hotspur en hann kom til félagsins frá Hellas Verona. Getty/ Catherine Ivill

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham hefur staðfest að það var leikmaður þeirra, Destiny Udogie, sem var ógnað með vopni af umboðsmanni í september.

Tottenham sendi frá sér yfirlýsingu eftir 4-0 sigur á FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni í gærkvöldi þar sem Udogie spilaði.

Talsmaður félagsins segir að þau hafi veitt Udogie og fjölskyldu hans stuðning frá því atvikið átti sér stað og muni halda því áfram.

„Þar sem þetta er lögreglumál getum við ekki tjáð okkur frekar,“ segir í yfirlýsingunni, að því er fram kemur í nokkrum breskum fjölmiðlum þar á meðal er Sky Sports.

Udogie er sagður hafa verið ógnað með byssu þegar hann gekk á götu í London ásamt fjölskyldumeðlim.

Talsmaður lögreglunnar sagði: „Lögreglan var kölluð til klukkan 23:14 laugardaginn 6. september vegna tilkynningar um að manni á þrítugsaldri hefði verið hótað með skotvopni. Lögreglumenn ræddu við fórnarlambið og við rannsókn málsins kom einnig í ljós að öðrum manni á þrítugsaldri hafði að sögn verið kúgað og hótað af sama einstaklingi,“ segir í yfirlýsingunni og hún hélt áfram.

„Engin meiðsl voru tilkynnt í hvorugu atvikinu. 31 árs gamall maður var handtekinn mánudaginn 8. september, grunaður um vörslu skotvopna í ólöglegum tilgangi, fjárkúgun og akstur án ökuréttinda. Honum hefur verið sleppt gegn tryggingu á meðan rannsókn heldur áfram.“

Destiny Udogie er 22 ára gamall ítalskur vinstri bakvörður sem kom til Tottenham í ágúst 2022. Hann var á láni hjá Udinese tímabilið 2022-23 en spilaði sitt fyrsta tímabil með Tottenham 2023-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×