Íslenski boltinn

Eiður Aron fylgir Davíð Smára til Njarð­víkur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Eiður Aron gerði eins árs samning við Njarðvík.
Eiður Aron gerði eins árs samning við Njarðvík. vísir / aðsend

Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur skrifað undir eins árs samning við knattspyrnudeild Njarðvíkur og mun spila með liðinu í Lengjudeildinni á næsta tímabili. Hann er fyrsti leikmaðurinn sem nýráðinn þjálfari liðsins, Davíð Smári Lamude, fær til félagsins.

Eiður Aron og Davíð Smári unnu saman hjá Vestra síðustu tvö tímabil þegar liðið spilaði í Bestu deildinni. Undir stjórn Davíð varð liðið bikarmeistari en fljótt fjaraði undan góðu gengi liðsins í deildinni og fall varð niðurstaðan eftir úrslitaleik við KR.

Skömmu áður hafði Davíð verið sagt upp störfum. Eiður Aron kláraði tímabilið en er nú genginn til liðs við Njarðvíkur.

Einn af betri miðvörðum Bestu deildarinnar á þessu tímabili mun því spila í Lengjudeildinni á næsta tímabili.

Njarðvík var í baráttunni um að komast upp um deild í sumar undir stjórn Gunnars Heiðar Þorvaldssonar en liðið datt úr leik í undanúrslitum umspilsins gegn nágrannaliðinu Keflavík, sem komst upp í Bestu deildina eftir sigur gegn HK í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli. 

Eiður Aron er orðinn 35 ára gamall og hefur einnig spilað með uppeldisfélaginu ÍBV og Val hér á landi. Á atvinnumannaferlinum frá 2011-17 spilaði hann með Örebrö í Svíþjóð, Sandnes Ulf í Noregi og Holstein Kiel í Þýskalandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×