Fótbolti

Sjáðu Glódísi Perlu tryggja sigur á Evrópumeisturum í tímamótaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar hér sigurmarki sínu í gær. Leikurinn fór fram á fyrir framan meira en 57 þúsund áhorfendur á Allianz Arena.
Glódís Perla Viggósdóttir fagnar hér sigurmarki sínu í gær. Leikurinn fór fram á fyrir framan meira en 57 þúsund áhorfendur á Allianz Arena. Getty/Adam Pretty

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir var hetja kvöldsins í Meistaradeild kvenna í gærkvöldi þegar hún skoraði sigurmark Bayern München á móti Arsenal.

Þetta var tímamótaleikur fyrir Bayern og tímamótaleikur fyrir Glódísi.

Bayern lenti 2-0 undir á móti ríkjandi meisturum í Arsenal en tókst að snúa leiknum sér í vil.

Glódís Perla skoraði síðan sigurmarkið á 86. mínútu eftir sendingu frá Klöru Bühl. Bühl lagði upp öll þrjú mörk Bayern í leiknum og var valin besti leikmaður leiksins.

Þetta var tímamótaleikur fyrir Glódísi sem er fyrirliði Bayern. Hún var þarna að leika sinn fimmtugasta leik í Meistaradeildinni og gat ekki haldið upp á það með betri hætti en sigurmarki á síðustu mínútunum.

Þetta var líka tímamótaleikur fyrir þýskan kvennafótbolta því leikurinn fór fram á Allianz Arena fyrir framan 57.762 áhorfendur en aldrei áður hafa svo margir mætt á kvennaleik í Þýskalandi.

Hér fyrir neðan má sjá allt það helsta úr leiknum en sigurmark okkar konu kemur eftir níu mínútur og fimmtíu sekúndur. Bayern fékk hornspyrnu en varnarmenn Arsenal komu boltanum frá marki.

Þó ekki lengra en út á kant þar sem boltinn barst til Klöru Bühl. Bühl sendi boltann á nærstöngina og þar kom Glódís Perla og afgreiddi boltann í markið eins og háklassa framherji.

Enn neðar má síðan sjá bara mörkin af samfélagsmiðlum Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×