Lífið

Fleiri lög berjast um far­seðilinn þrátt fyrir ó­vissuna

Bjarki Sigurðsson skrifar
VÆB-bræður voru fulltrúar Íslands í Eurovision fyrr á þessu ár eftir sigur í Söngvakeppninni.
VÆB-bræður voru fulltrúar Íslands í Eurovision fyrr á þessu ár eftir sigur í Söngvakeppninni. Vísir/Hulda Margrét

Ríkisútvarpinu hafa borist á annað hundrað lög til þátttöku í Söngvakeppninni í ár þótt enn liggi ekki fyrir hvort Ísland verði á meðal þátttökuþjóða í Eurovision í Vín. Fleiri lög hafa borist en í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV á samfélagsmiðlum. Frestur til að senda inn lög var framlengdur til 20. nóvember. Til samanburðar rann fresturinn í fyrra út 13. október.

Í tilkynningunni segir að nú þegar hafi borist fleiri lög en í fyrra þegar 110 lög voru send inn til þátttöku.

„Þótt endanleg ákvörðun um þátttöku Íslands í Eurovision liggi ekki fyrir höldum við ferli við lagaval áfram,“ segir í tilkynningunni.

„Hvetur RÚV höfunda til að nýta tækifærið áður en skilafrestur rennur út.“

Hætt við lykilatkvæðagreiðslu eftir vopnahlé

Fram kom á dögunum að enn væri algjör óvissa uppi um það hvort Söngvakeppnin fari fram yfir höfuð vegna óvissunnar með þátttöku í Eurovision.

Ríkisútvarpið tilkynnti í september að Ísland myndi taka þátt í Eurovision í Vín á næsta ári með þeim fyrirvara að niðurstaða samráðs innan Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) um þátttöku Ísraels lægi fyrir.

Hætt var við atkvæðagreiðslu um þátttöku Ísrael sem fara átti fram í nóvember þegar vopnahlé tók gildi hjá Ísrael og Hamas-samtökunum. Til stendur að ræða málið á aðalfundi EBU í desember en ekki er reiknað með neinni atkvæðagreiðslu eða niðurstöðu vegna málsins.

Einstaka undantekningar

Söngvakeppnin hefur alla jafna verið sú leið sem Íslendingar hafa nýtt til að velja sér framlag sitt til Eurovision undanfarin ár og keppnin heitið sama nafni síðan 2013. Það hafa verið undantekningar líkt og árin 2004 og 2005 þegar Jónsi og Selma Björnsdóttir voru valin til þátttöku án nokkurrar keppni.

Sömuleiðis fór engin keppni fram stærstan hluta tíunda áratugarins frá 1995 til 1999. Undanfarin ár hefur þó engin önnur leið verið farin til að velja framlag Íslands og myndi það því sæta töluverðum tíðindum yrði önnur leið farin í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.