Enski boltinn

Orðaður við Liverpool og með 65 milljóna punda riftunarákvæði í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antoine Semenyo fagnar marki fyrir Bournemouth á móti Liverpool á Anfield á þessu tímabili.
Antoine Semenyo fagnar marki fyrir Bournemouth á móti Liverpool á Anfield á þessu tímabili. Getty/Robin Jones

Antoine Semenyo hjá Bournemouth hefur verið orðaður við Englandsmeistara Liverpool og BBC hefur nú fengið það staðfest. Semenyo er með 65 milljóna punda riftunarákvæði í samningi sínum.

Riftunarákvæði er að virkja á fyrstu tveimur vikum janúargluggans.

Ganaski landsliðsmaðurinn vakti áhuga nokkurra félaga í sumar, þar á meðal Manchester United og Tottenham, en þá skrifaði þessi 25 ára gamli leikmaður undir nýjan fimm ára samning við Bournemouth.

Breska ríkisútvarpið hefur komist að því að nýi samningurinn hans inniheldur riftunarákvæði sem hægt er að virkja á fyrstu tveimur vikum vetrargluggans til að gefa Bournemouth nægan tíma til að finna arftaka stjörnuleikmanns síns.

Vetrarglugginn opnar fimmtudaginn 1. janúar 2026 fyrir félög í ensku úrvalsdeildinni og lokar klukkan 19:00 mánudaginn 2. febrúar.

Semenyo hefur verið í frábæru formi í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili, skorað sex mörk og gefið þrjár stoðsendingar í ellefu leikjum fyrir lið Andoni Iraola.

Á síðasta tímabili náði hann tveggja stafa tölu í markaskorun í fyrsta sinn á ferlinum, ellefu mörk í deildinni og þrettán í öllum keppnum.

Semenyo skoraði meðal annars tvö mörk á Anfield í fyrstu umferðinni á þessu tímabili. Það er ekkert skrítið ef forráðamenn Liverpool hafa verið með augun á honum síðan þá.

Semenyo, sem er frá London, var hafnað af Arsenal, Spurs og Millwall á yngri árum áður en hann gekk til liðs við akademíuna í Vestur-Englandi sem rekin er af Dave Hockaday, fyrrverandi stjóra Leeds og Forest Green.

Bristol City samdi við hann árið 2017 en hann þurfti að fara á lán til Bath, Newport og Sunderland áður en hann braust inn í aðallið Bristol City á tímabilinu 2020-21.

Í janúar 2023 fór hann til Bournemouth fyrir tíu milljónir punda og hefur bætt sig jafnt og þétt síðan þá.

Mörk Semenyo hjálpuðu Bournemouth að enda í níunda sæti á síðasta tímabili en félagið seldi þrjá af fjórum varnarmönnum sínum, Illia Zabarnyi, Milos Kerkez og Dean Huijsen, fyrir tæpar 150 milljónir punda í sumar. Liverpool keypti bakvörðinn Milos Kerkez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×