Skoðun

Sam­ráð óskast: fjölmenningarstefna Reykja­víkur­borgar

Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns skrifar

Íbúar Reykjavíkur eru margskonar og hefur fólk sest hér að í um 1150 ár. Síðustu aldir hefur mannflóran dafnað og er þessi gróðurstaður okkar orðinn fallegur, fjölbreytilegur og til fyrirmyndar á margan hátt.

Á borgarstjórnarfundi 18. nóvember sl. var samþykkt að drög að nýrri fjölmenningarstefnu Reykjavíkurborgar yrðu sett í samráðsgátt og er það heldur betur fagnaðarefni.

Reykjavíkurborg gegnir mörgum hlutverkum. Hún er ekki bara stærsti atvinnurekandi landsins, heldur er hún þjónustuveitandi, samstarfsaðili og verkkaupi. Reykjavíkurborg er þar að auki stjórnvald. Það er því mikilvægt að borgin sé leiðandi í stefnumótun um fjölmenningu því það er í dag sem við leggjum línurnar fyrir framtíðina og slík stefnumótun endurspeglar því ekki bara hver við erum sem borg heldur einnig hvernig við viljum vera.

Þarfar uppfærslur til að mæta sameiginlegri framtíð

Í fjölmenningarstefnunni sem borgarstjórn samþykkti einróma að senda í samráðsgátt til umsagnar stendur eftirfarandi: „Reykjavík er eflandi, sjálfbært og fjölbreytt borgarsamfélag sem hvetur til virkrar þátttöku, tryggir öryggi og stuðlar að vellíðan allra. Til að ýta undir jákvæða þróun í nútímalegu samfélagi þarf að samþykkja og fagna fjölbreytileika þess.”

Þetta er kjarni málsins. Því við erum bæði lánsöm að búa í einni af bestu borgum heims og búa við þess háttar lýðræði sem stuðlar að þátttöku borgarbúa í mótun og útfærslu á stefnum sem lagðar eru til grundvallar þess samfélags sem við búum í. Það er því mikilvægt að fjölmenning sé samofin allri starfsemi og öllum hlutverkum borgarinnar - en sé ekki bara viðbót sem bætt er við eftirá. En þessi nálgun einkennir einmitt fjölmenningarstefnuna.

Hvernig?

Við viljum öll sem íbúar Reykjavíkur getað vaxið og dafnað sem borgarar. Til þess að tryggja það þurfum við að efla aðgengi í breiðari skilningi, bæði innan borgarkerfisins og í umhverfi borgarinnar í heild. Við þurfum að setja okkur sterk og raunhæf markmið, sækja samráð og fylgja eftir.

Inngildandi nálgun hefur náð fótfestu á Íslandi og við erum enn að átta okkur á hvað felst í henni og hvaða hlutverk við sem einstaklingar og sem heild höfum í að tryggja að við öll upplifum okkur örugg, að okkur líði vel og að við upplifum að við séum hluti af heildinni. Inngilding er okkur ekki svo framandi hugtak. Margt sem í því felst hafa íbúar borgarinnar haft að venju síðan fyrstu innflytjendur settust hér að. Þar var í hávegum höfð virðing fyrir fjölbreytileika, persónuleg ábyrgð, jafnræði og samfélagsleg samheldni, og þau samræmast þeim siðfræðilegu gildum og hefðum sem geta auðveldlega tekið á móti öllum sem vilja tilheyra án útilokunar. Hér ber að nefna að inngilding felur í sér ábyrgð beggja - eða allra aðila - þetta snýst um það hvernig við mætum hvert öðru og hvernig við komum til móts við hvort annað.

Hver á að gera það? Erum það við?

Nú þegar er unnið gott starf innan Reykjavíkurborgar og mun þessi stefna að loknu samráði styrkja það starf og setja okkur markmið til framtíðar sem endurspegla virðingu og hvetja íbúa til þátttöku, til þess að gera borgina okkar enn meira lifandi. En við höfum öll hlutverki að gegna ef okkur á að takast að gera framtíðina enn bjartari.

Ég hvet alla borgarbúa, fyrirtæki og samtök að skoða samráðsgátt Reykjavíkurborgar almennt. Hann er að finna á slóðinni https://samradsvefur.is/og þegar fjölmenningarstefnan verður aðgengileg þar vonast ég til að sem flest nýti tækifærið til að hafa áhrif með að rýna í stefnuna og veita umsögn.

Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Pírata




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ytra mat á ís

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jenný Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×