Handbolti

„Ég held að þetta geri okkur alla betri“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Breki Hrafn Árnason, markvörður Fram.
Breki Hrafn Árnason, markvörður Fram. Vísir/Diego

„Þetta var náttúrulega bara allt annað en leikurinn í síðustu viku,“ sagði Breki Hrafn Árnason, markvörður Fram, eftir tap liðsins gegn Kriens-Luzern í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld.

Fram mátti þola fjögurra marka tap, 31-35, í leik sem var jafn og spennandi nánast alveg til loka. Það er mikill munur frá því að liðin mættust í Sviss í síðustu viku, þar sem Kriens-Luzern vann 15 marka sigur.

„Við mættum miklu betur til leiks og spiluðum miklu betri handbolta. Við vorum líkari sjálfum okkur í þessum leik. Eins og í síðustu leikjum hefur þetta svolítið verið að fara frá okkur á síðustu tíu mínútunum. Menn eru orðnir þreyttir, eða ég veit ekki hvað það er. Við finnum bara lausnir á því.“

Hann segist þó ekki geta útskýrt endilega af hverju Framarar spiluðu mun betur í kvöld en í síðustu viku.

„Ég veit ekki alveg hvað það var. Það er náttúrulega ákveðin orka sem kemur frá því að vera að spila síðasta Evrópuleikinn heima, allavega í þetta sinn. Þannig að menn vildu bara gefa allt í þetta. Auðvitað vildum við gera það líka í síðasta leik, en bara náðum ekki að koma því fram sem við vildum koma fram þar.“

Þá segir hann margt hafa verið gott í leik Fram í kvöld, en seinni bylgja og hraðar sóknir gestanna hafi valdið þeim miklum vandræðum.

„Það er nefnilega málið. Þegar við erum fljótir til baka og náum að koma okkur í stöðurnar þá spilum við oftast góða vörn. En þegar við eigum leiki þar sem við erum lengi til baka þá lendum við alltaf í brasi. Það er bara erfitt fyrir alla að spila vörn þegar maður er lengi til baka.“

Að lokum útilokar Breki ekki að Fram nái að stela stigum í síðustu tveimur leikjum riðlakeppninnar, gegn stórliðum Elverum og Porto.

„Planið er bara að ræna fjórum stigum, við stefnum á það. Það verður gaman að klára þessa leiki. Þetta er búið að vera gott fyrir okkur ungu strákana og góð reynsla til að bæta við ferilinn. Ég held að þetta geri okkur alla betri,“ sagði Breki að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×