Menning

Þrír metnir hæfir til að stýra Óperunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorleifur Örn, Finnur og Bjarni Thor eru metnir hæfir til að gegna hlutverkinu.
Þorleifur Örn, Finnur og Bjarni Thor eru metnir hæfir til að gegna hlutverkinu. Vísir

Hæfnisnefnd hefur metið þrjá hæfa í hlutverk óperustjóra við Nýja þjóðaróperu. Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur lýst sig vanhæfan í málinu og mun Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra taka ákvörðunina.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hæfnisnefndin metið þá Bjarna Thor Kristinsson, Finn Bjarnason og Þorleif Örn Arnarsson hæfa til að gegna stöðunni. Til stóð að skipa í stöðuna eigi síðar en 15. nóvember síðastliðinn en seinkun hefur orðið á því. Ein af flækjunum er hæfi menningarráðherra.

Logi Einarsson mun ekki ákveða hver verður óperustjóri heldur kemur það í hlut Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.Vísir/Ívar Fannar

Ástæðan er sú að Finnur Bjarnason var í nóvember fyrir tveimur árum ráðinn verkefnisstjóri hjá menningarráðuneytinu vegna stofnunar þjóðaróperu. Hann hefur því unnið náið innan ráðuneytis Loga sem telur sig ekki hæfan til að taka ákvörðun um ráðninguna.

Fram kom hjá Ríkisútvarpinu í dag að Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra taki við málinu í stað Loga.

Ellefu sóttu um stöðu óperustjóra og kom það í hlut fimm manna hæfnisnefndar að leggja mat á umsækjendur. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir var formaður nefndarinnar en auk hennar sátu í nefndinni Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri sem óperan mun heyra undir, Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur, Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Þóra Einarsdóttir óperusöngvari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.