Fótbolti

Tómas Bent og fé­lagar með sex stiga for­ystu á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Bent Magnússon fagnar Claudio Braga eftir að sá síðarnefndi kom Hearts í 1-0 í leiknum í kvöld.
Tómas Bent Magnússon fagnar Claudio Braga eftir að sá síðarnefndi kom Hearts í 1-0 í leiknum í kvöld. Getty/Andrew Milligan

Tómas Bent Magnússon og félagar í Hearts eru í fínum málum á toppi skosku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 útisigur á Falkirk í kvöld.

Taflan lítur þó betur út en hún er í raun og veru. Hearts er vissulega með sex stigum meira en Celtic en Celtic-menn eiga hins vegar tvo leiki inni.

Þetta var annar sigur Hearts í röð eftir að liðið náði aðeins í aðeins þrjú stig af tólf mögulegum í fjórum leikjum þar á undan.

Það leit út fyrir að Hearts-menn væru að henda þessu frá sér en þeir hafa sýnt og sannað annað með því að vinna Celtic á útivelli í síðasta leik og fylgja því síðan eftir með öðrum útisigri í kvöld.

Tómas Bent var í byrjunarliðinu og fékk að líta gula spjaldið á 28. mínútu.

Þá var staðan orðin 1-0 eftir að Claudio Braga kom liðinu í 1-0 strax á annarri mínútu.

Þannig var staðan þar til á 77. mínútu þegar Stephen Kingsley bætti við öðru marki. Það var lokamark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×