Fótbolti

Romano segir fólki að fylgjast með Alberti í janúar

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson skoraði sigurmark gegn Dynamo Kiev í Sambandsdeildinni á dögunum.
Albert Guðmundsson skoraði sigurmark gegn Dynamo Kiev í Sambandsdeildinni á dögunum. Getty/Gabriele Maltinti

Vel kemur til greina að landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson yfirgefi Fiorentina í janúar og fari jafnvel úr botnbaráttunni á Ítalíu beint í titilbaráttu.

Fabrizio Romano, þekktasti félagaskiptafréttamaður heims, bendir á Albert í dag og segir þar alvöru líkur á því að Albert fari frá Fiorentina í byrjun næsta árs. Þreifingar séu í gangi og að vert sé að fylgjast með Alberti næstu vikurnar á meðan að viðræður eigi sér stað.

Romano, með sína 26,5 milljónir fylgjenda á Twitter, vísar svo á annan ítalskan blaðamann, Matteo Moretto, sem ræðir um Albert í þætti á Youtube-rás Romano.

Þar tekur Moretto fyrir orðróminn um að Albert gæti verið á leið til Roma sem er í 4. sæti ítölsku A-deildarinnar, aðeins þremur stigum frá toppliði Inter.

Ljóst er að Roma hefur áhuga á Alberti en Moretto sagði í þættinum í gær að enn væri aðeins um hugmynd að ræða. Engar samningaviðræður væru hafnar.

Hann segir að Fiorentina gæti hugsað sér að láta Albert fara ef áhugavert tilboð bærist og bætir við að leikmannahópur Fiorentina gæti átt eftir að breytast mikið, jafnvel strax í janúar.

Fiorentina hefur enn ekki unnið leik á þessu tímabili, í 15 deildarleikjum, og situr á botni ítölsku deildarinnar með aðeins sex stig. Liðið er átta stigum frá næsta örugga sæti en gengur betur í Sambandsdeild Evrópu og mun komast þar áfram í útsláttarkeppnina, eftir sigurmark Alberts gegn Dynamo Kiev í síðustu viku.

Paolo Vanoli var ráðinn nýr þjálfari Fiorentina í byrjun nóvember, eftir að Stefano Pioli var rekinn. Pioli tók við liðinu í sumar af Raffaele Palladino sem stýrði Alberti á síðustu leiktíð, eftir komu íslenska landsliðsmannsins frá Genoa. Vanoli hefur haft Albert í byrjunarliðinu í þremur af fimm deildarleikjum síðan hann tók við, þar af tveimur síðustu sem báðir hafa tapast, gegn Sassuolo og Hellas Verona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×