Barcelona með fjögurra stiga for­skot inn í nýtt ár

Aron Guðmundsson skrifar
Lamine Yamal skoraði eitt marka Börsunga í dag 
Lamine Yamal skoraði eitt marka Börsunga í dag  Vísir/Getty

Barcelona jók forskot sitt á toppi deildarinnar í erkifjendur sína í Real Madrid aftur í fjögur stig í dag með 2-0 sigri á Villarreal.

Real Madrid bar sigur úr býtum gegn Sevilla í gær og minnkaði því bilið í topplið Barcelona niður í eitt stig en Börsungar gátu svarað fyrir það á útivelli í dag og það gerðu þeir.

Strax á 12.mínútu kom Raphinha Börsungum yfir með marki úr vítaspyrnu og reyndist það lengi vel eina mark leiksins. Allt þar til á 63.mínútu þegar að Lamine Yamal tvöfaldaði forystu Börsunga með sínu áttunda marki í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Heimamenn spiluðu einum manni færri dágóðan hluta leiks eftir að Portúgalinn Renato Veiga fékk að líta rauða spjaldið á 39.mínútu eftir glórulausa tæklingu hans á Lamine Yamal. Tveggja fóta tækling sem verðskuldaði rautt spjald.

Tveggja marka sigur Börsunga staðreynd og eykur liðið forskot sitt á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar aftur upp í fjögur stig. Þetta var síðasti leikur liðanna á árinu. Börsungar mæta grönnum sínum í Espanyol í fyrsta leik sínum á nýju ári þann 3.janúar næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira