Enski boltinn

Slot mun sakna Isak í tvo mánuði eftir „glórulausa tæk­lingu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arne Slot er ósáttur út í Micky van de Ven. 
Arne Slot er ósáttur út í Micky van de Ven.  Vísir/Getty

Arne Slot segir Alexander Isak eiga eftir að vera fjarverandi í allavega tvo mánuði. Sænski framherjinn brákaði bein í fæti þegar hann var tæklaður af varnarmanni Tottenham um helgina.

Micky van de Ven renndi sér í Isak þegar Svíinn skoraði fyrra mark Liverpool í 2-1 sigri í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Markið og tæklinguna má sjá eftir rúma mínútu í spilaranum hér fyrir neðan.

Liverpool staðfesti vondan grun stuðningsmanna í gærkvöldi þegar félagið greindi frá því að Isak hefði brákað dálkbein í ökkla og gengist undir aðgerð.

„Þetta verða löng meiðsli, allavega tveir mánuðir. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir hann og okkur“ sagði svo þjálfari liðsins, Arne Slot, við BBC.

„Fyrir mér er þetta glórulaus tækling. Ef þú tæklar svona tíu sinnum mun leikmaður meiðast alvarlega tíu sinnum“ sagði Slot einnig.

Ekki eru þó allir sammála Slot og meira að segja einn harðasti Liverpool maður heims, Jamie Carragher, fyrrum leikmaður liðsins og sparkspekingur á SkySports, kom Micky van de Ven til varna í gær.

„Ef ég set mig í hans spor, þá er þetta tækling sem ég hefði hent mér í. Hann er að reyna að komast fyrir boltann og hittir hann bara í kjölsoginu, þetta er óheppilegt en ég sé ekkert að þessu. Þú getur ekki bara leyft framherjanum að skjóta úr svona stöðu, en þetta er mjög óheppilegt fyrir Isak því þetta var líklega í fyrsta sinn sem hann átti góðan leik fyrir Liverpool“ sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×