Atvinnulíf

Trendin 2026: Gervigreindin mikil­væg og laun mögu­lega aug­lýst

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Unnur Ýr Konráðsdóttir, varaformaður Mannauðs og ráðgjafi hjá VinnVinn, fer yfir trendin 2026 að þessu sinni. Hún segir gervigreindina verða áberandi áfram og mjög líklega munu vinnustaðir nýta árið 2026 í stefnumótun og frekari greiningu á breytingum starfa.
Unnur Ýr Konráðsdóttir, varaformaður Mannauðs og ráðgjafi hjá VinnVinn, fer yfir trendin 2026 að þessu sinni. Hún segir gervigreindina verða áberandi áfram og mjög líklega munu vinnustaðir nýta árið 2026 í stefnumótun og frekari greiningu á breytingum starfa. Vísir/Anton Brink

Að þessu sinni förum við yfir möguleg trend og nýjar áherslur fyrir árið 2026 með Unni Ýri Konráðsdóttur, varaformanni Mannauðs, samtaka mannauðsfólks á Íslandi, og ráðgjafa hjá VinnVinn.

Sem segir spennandi ár framundan fyrir vinnustaði og starfsfólk.

Þar verði gervigreindin áberandi, hún sé langt frá því að vera orðin þreytt umræða þótt sumum finnist það jafnvel nú þegar. Að innleiða nýja tilskipun Evrópusambandsins um launagagnsæi gæti líka orðið sumum vinnustöðum áskorun.

Því þrátt fyrir að launaleynd hafi verið afnumin fyrir löngu síðan, þá lifir hún enn sterkt í íslenskri menningu.“

Aðspurð um ráðningamálin og ný störf, er Unnur bjartsýn.

„Við höfum fengið erfiðar fréttir, eins og af gjaldþroti Play og hópuppsögnum hjá Icelandair og PCC á Bakka, sem hafa haft áhrif á hundruð sérhæfðra starfa. Það er ekki sjálfgefið að fólk með slíka sérþekkingu finni strax nýtt starf við hæfi, en þar liggja líka tækifæri.“

Verða laun auglýst?

Unnur segir gervigreindina augljósa sem stærstu áhersluna í mannauðsmálum árið 2026.

„Þó að margir séu farnir að nýta tæknina bæði í lífi og starfi, þá eru mörg fyrirtæki ekki komin nógu langt í að taka skýrar ákvarðanir um hvernig eigi að nota hana á ábyrgan, gagnlegan og sanngjarnan hátt.“

Í þessum efnum telur Unnur líklegt að mörg fyrirtæki fari í stefnumótun um gervigreindina á næsta ári. Þar sem vinnustaðir munu þá líka velta fyrir sér spurningum eins og hvaða gervigreindar-tól á að nota, í hvaða tilgangi og hvar mörkin liggja.

„Það verður líka aukin athygli á að skilja hvaða störf munu breytast mest og hvernig við styðjum við starfsfólk í þeirri umbreytingu, bæði með þjálfun og endurhönnun starfa.“

Eitt af því sem verður líka afar spennandi að fylgjast með á næsta ári, er innleiðing tilskipunar ESB um launagagnsæi. Því þótt íslensk fyrirtæki séu ýmsu vön í skýrslugjöfum eða að passa launamun kynjanna, sé menningin í samfélaginu sú að lítið er vitað eða opinberað nákvæmlega um laun fólks.

Þetta sé líklegt að muni breytast með tilskipuninni. Jafnvel þannig að launaupplýsingar verða birtar þegar störf eru auglýst.

„Því samkvæmt tilskipuninni er skýrt að upplýsa þarf umsækjendur um laun áður en viðtöl hefjast. Þá verður ekki heimilt lengur að spyrja umsækjendur um launasögu þeirra, sem mun jafna leikinn töluvert. Samtalið mun þá mun frekar snúast um starfið sjálft og hvað það er metið á, frekar en hvað umsækjandinn hefur fengið greitt áður. Með þessu færist valdið að hluta til frá vinnuveitendum yfir til umsækjenda.“

Unnur telur ýmsa kosti felast í því að birta upplýsingar um laun í auglýsingum. Til dæmis verður auðveldara fyrir umsækjendur að ákveða hvort þeir vilji sækja um tiltekið starf eða ekki. Þá getur það dregið úr vinnu við umsóknir og atvinnuviðtöl fyrir vinnuveitendur ef búið er að upplýsa um launin fyrirfram.

„Tilskipunin mun að öllum líkindum ekki aðeins leiða til aukins launagagnsæis á íslenskum vinnumarkaði, heldur einnig hafa bein áhrif á vinnumenningu og samtal um laun og verðmæti vinnu í íslensku samfélagi,“ segir Unnur.

Unnur segir margt jákvætt geta fylgt því að birta upplýsingar um laun þegar störf eru auglýst. Gagnsæi eykst á vinnumarkaði, fólk getur betur áttað sig á því hvort það vilji sækja um tiltekið starf eða ekki og álag verður mögulega minna fyrir vinnuveitendur í ráðningaferli.Vísir/Anton Brink

Hvað þurfum við að gera betur?

Á hverju ári er líka gott að staldra aðeins við og velta fyrir okkur: Í hverju mættum við standa okkur betur í?

Aðspurð um þetta segist Unnur telja vinnustaði mega efla sig í að verða betur undir breytingar búin fyrirfram.

Þannig að við séum í raun ekki að elta skottið á okkur sjálfum eða bregðast við eftir á.

„Við þurfum að passa okkur á því að festast ekki í því að bregðast alltaf við þegar reglur koma utan frá, heldur nýta tækifærið til að vera skrefi á undan. Þar höfum við ákveðna yfirburði sem lítil þjóð. Við eigum að geta hreyft okkur hraðar, prófað okkur áfram og aðlagað okkur með markvissari hætti en stærri samfélög,“ segir Unnur og bætir við:

„Þetta á sérstaklega við þegar kemur að tækniþróuninni sem er í fullum gangi. Þar er einstakt tækifæri til staðar fyrir Ísland til að móta sér skýrari sérstöðu í því hvernig við nálgumst breytingar á störfum, endurhönnum hlutverk og styðjum starfsfólk í að þróa nýja færni.“

Unnur segir það hollt og gott fyrir okkur öll að vera markvissari í því að greina hvað er að breytast og undirbúa fólk í samræmi við það. Til dæmis með því að greina og ræða um hvaða störf munu breytast og hvaða störf munu hverfa.

„Við þurfum að undirbúa fólk fyrir ný eða breytt störf og fjárfesta í þjálfun sem raunverulega nýtist í starfi. Sem þýðir að við þurfum líka að styðja stjórnendur í þeirri vegferð sem framundan er. Því hvort sem við erum að ræða um gervigreind, launagagnsæi eða breytingar á störfum, þá endar þetta allt í samtölum,“ segir Unnur og bætir við:

„Og ef stjórnendur hafa ekki verkfæri, þekkingu og öryggi til að taka þessi samtöl, þá verða breytingar mun erfiðari en þær þurfa að vera.“

Unnur segir atvinnuleysistölur ekki alltaf endurspegla hvað sé að gerast í ráðningamálum. Nú sé til dæmis brjálað að gera í þeim efnum, þótt mikið hafi verið um uppsagnir og atvinnumissi fólks í haust. Þegar slíkt gerist, opnist oft ný tækifæri.Vísir/Anton Brink

Unnur segist ætla að vera bjartsýn á komandi tíma í atvinnumálum og ráðningum. Enda segir hún tölur um atvinnuleysi ekki alltaf endurspegla hvort það séu ekki spennandi tækifæri til staðar.

Atvinnuleysi hefur sveiflast töluvert á þessu ári og heildarfjöldi auglýstra starfa er minni en áður, en verkefnin hjá okkur hafa ekki dregist saman. Þvert á móti er nóg að gera.“

Þrot Play eða hópuppsagnir fyrirtækja eins og Icelandair eða PCC á Bakka þýði að þaðan er að koma fólk með þekkingu og færni sem vel getur nýst í nýjum hlutverkum.

„Sagan sýnir okkur líka að íslenskt samfélag jafnar sig hratt eftir áföll. Þrátt fyrir sveiflur og stórar uppsagnir, þá eru allar líkur á því að vinnumarkaðurinn aðlagist og að við finnum jafnvægi á ný.“


Tengdar fréttir

Andlega uppsögnin: „Þetta er ekki sonur minn sko…“

„Það hljómar svo sem ágætlega að 34 til 36% starfsfólks á vinnumarkaði séu virkir starfsmenn sem svo sannarlega skila sínu, “segir Jón Jósafat Björnsson um niðurstöður sem kynntar voru á vinnustofu sem Dale Carnegie hélt í samvinnu við Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi, fyrir skömmu.

Trendin 2023: „Við getum ekki lengur treyst á reynslu fortíðarinnar“

„Við getum ekki lengur treyst á reynslu fortíðarinnar heldur verðum við að horfa til framtíðar og vera tilbúin að bregðast við óþekktri framtíð,“ segir Íris Sigtryggsdóttir stjórnendaráðgjafi hjá Eldar Coaching og stjórnarkona í Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi, um áherslur í mannauðsmálum framundan.

Trendin 2023: Hæfni en ekki starfsheiti eða prófgráður verður málið

„Hæfniþættir verða miðjan í vinnunni, ekki starfsheiti eða prófgráður. Við munum gera spár um mannaflaþörf, ráðningar, skipulag fræðslu, starfsþróun og fleira út frá hæfniþáttum en ekki starfsheitum eða deildum,“ segir Herdís Pála Pálsdóttir stjórnunarráðgjafi og annar stofnenda Opus Futura meðal annars um áherslur í mannauðsmálum árið 2023.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×