Gagnrýni

Móðurmorð í blóðugu jólaboði

Símon Birgisson skrifar
Ebba Katrín Finnsdóttir mundar öxina í hlutverki Óresteisar meðan Nína Dögg Filippusdóttir verst árásinni í hlutverki Klítemneistru.
Ebba Katrín Finnsdóttir mundar öxina í hlutverki Óresteisar meðan Nína Dögg Filippusdóttir verst árásinni í hlutverki Klítemneistru.

Það er alltaf eftirvænting í loftinu á jólafrumsýningu Þjóðleikhússins. Þetta er ekki fjölskylduvænasta jólahefðin, hvorki fyrir áhorfendur né leikara. En sérstakt er það – að mæta í leikhúsið á annan í jólum, sumir komnir beint úr jólaboðum og gleyma sér í leikhúsinu. Jólasýningin í ár var Óresteia. Um fjögurra klukkutíma leikrit eftir Benedict Andrews byggt á blóðugri grískri tragedíu. Og hvað er jólalegra eða íslenskara en fjölskylduharmleikur á jólum? Hvorki leikrit eða leikstjórn Benedict Andrews olli mér vonbrigðum. Þetta var alvöru kjaftshögg á hátíð ljóss og friðar. Sýning sem lætur engan ósnortinn – þá sem treysta sér að mæta það er að segja.

Óresteia – Þjóðleikhúsið. Frumsýnt 26. desember 2025.

Leikrit: Benedict Andrews, byggt á þríleik Æskílosar – Óresteiu. Leikstjóri: Benedict Andrews. Leikmynd: Elín Hansdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Bára Gísladóttir. Leikarar: Hilmir Snær Guðnason. Nína Dögg Filippusdóttir, Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Atli Rafn Sigurðarson.


Blóð vill blóð

Benedict Andrews er íslenskum leikhúsáhorfendum vel kunnur. Shakespeare-sýningar hans í Þjóðleikhúsinu á árunum 2011 – 2013 eru eftirminnilegar, sérstaklega Lér konungur þar sem Benedict nýtti til hins ýtrasta einfalt en ógnarsterkt myndmál – ekki ósvipað og hann gerir í Óresteiu. Benedict sneri aftur í Þjóðleikhúsið fyrir nokkrum árum þegar hann leikstýrði fyrstu tveimur verkum í þríleik þýska leikskáldsins Marius von Mayenburg. Þær sýningar hluti góða dóma og viðtökur en nú fáum við í fyrsta skipti að kynnast Benedict sem bæði leikskáldi og leikstjóra því þó Óresteia sé byggð á hinum gríska harmleik Æskilosar er leiktextinn eftir Benedict (þýðingin er í höndum Kristínar Eiríksdóttur rithöfundar).

Ebba Katrín fer með hlutverk Óresteisar, auk annarra, í sýningunni.

Óresteia er á allan hátt myrkur og vægðarlaus harmleikur. Bölvun ættar Pelóps hefst á ógæfuverki Atreifs sem hefnir sín grimmilega á bróður sínum Þíastesi (sem dregur eiginkonu hans á tálar) með því að drepa börnin hans, brytja þau niður og gabba Þíastes til að borða þau. Þessa forsögu rifjar Atli Rafn upp í eftirminnilegri einræðu Ægisþosar (sonur Þíastesar) og ég sá pínu eftir því að hafa hámað í mig reykt hangikjöt áður en ég mætti í leikhúsið.

Refsing guðanna fyrir þetta ógæfuverk er að leggja bölvun á ættina. Blóð kallar á blóð er eitt af leiðarstefjum verksins og endurtekið reglulega af kórnum og persónum verksins. Þegar mannfólkið tekur sér guðlegt vald í hendur, gengur gegn vilja guðanna og kennir svo guðunum um það sem illa fer þá svara guðirnir fyrir sig. Þetta stef ómar í gegnum hvern þátt verksins og á sér skýra samsvörun í samtíma okkar – stríðum, manndrápum, tækni og eyðileggingu náttúrunnar.

Vél hefndarinnar

Það er Agamemnon (Hilmir Snær), annar sona Atreifs, sem verður leiksoppur guðanna og örlaganna. Hann fer að vilja guðanna og fórnar dóttur sinni, Ífígeníu, til að fá byr í seglin í orrustunni gegn Tróju. Þegar hann snýr heim úr stríðinu er hann myrtur af Klítemnestru (Nína Dögg) drottningu og Ægisþosi (Atli Rafn) – ástmanni hennar. Það kemur svo í hlut barna Klítemnestru og Agamemnons – Elektru (Ásthildur Úa) og Órestesar (Ebba Katrín) að hefna föðurmorðsins.

Þetta er harmur á harm ofan. Órestes er í leikriti Benedicts ólíkur hinum karlmannlega föður sínum, ráðvilltur ungur maður sem á erfitt með að finna sér stað eða hlutskipti í vitskertri veröld. Hann fær skipun frá guðunum að myrða sína eigin móður. Hvenær verður gjaldið fyrir ógæfuverk Atreifs greitt að fullu? Eru guðirnir samsekir eða saklausir í þessu blóðuga fjölskylduharmleik og mun hin mikla vél hefndarinnar (sem á svo sannarlega samhljóm með Shakespeare verkunum sem Benedict setti upp hér á landi á sínum tíma) einhvern tíma hægja á sér eða stöðvast?

Verkið fjallar einnig um sekt og sakleysi. Þetta er glæpur og refsing á sterum. Við eigum Grikkjunum svo sannarlega margt að þakka í menningu okkar og samfélagsskipan og Órestea Æskýlosar er kannski einnig fyrsta alvöru réttardramað.

Nína Dögg, Hilmir Snær og Ásthildur Úa í hlutverkum sínum.

Magnaðir leikarar

Eitt af því sem stendur upp úr í þessari mögnuðu sýningu er leikhópurinn. Það er ástæða fyrir því að stundum eru kallaðir til erlendir þjálfarar í fótboltanum til að fá það besta út úr íslenskum leikmönnum (strákunum okkar sem vitnað er til í sýningunni). Benedict tekst að búa til samstilltan leikhóp þar sem hver og einn leikari skiptir áreynslulaust milli hlutverka og allir eiga sín augnablik.

Nína Dögg fannst mér sterkust í lokaþættinum sem gyðjan Aþena. Hún skapaði einnig áhugaverða og nútímalega mynd af Klítemnestru og túlkaði af innlifun reiði hennar gagnvart eiginmanninum og Kassöndru. Hilmir Snær lék hinn útslitna og veðurbarða Agamemnon af krafti – Hann hefur sterka nærveru, flotta framsögn og líkamlega nærveru sem skilaði sér á sviðinu, sérstaklega í þriðja þættinum þar sem refsivættirnar koma til sögunnar.

Atli Rafn var á heimavelli í sýningunni. Hann nýtur sín oft best þegar hann fær að dansa á mörkum leiklistar og myndlistar (e. performance art). Hann leikur hér nokkur hlutverk – Ægisþos, varðmann og svo skilaði hann eymd hermannsins sem snýr aftur heim eftir orrustuna á Tróju á sársaukafullan og trúverðugan hátt - það eru engir sigurvegarar í stríði.

Ásthildur Úa og Ebba Katrín leika systkinin Elektru og Órestes.

Stjarna sýningarinnar er hins vegar Ásthildar Úa í hlutverki Kassöndru – herfangs Agamemnon sem getur séð inn í framtíðina – sem er bölvun því enginn trúir sýnum hennar. Ásthildur túlkaði eymd Kassöndru, fyrst án orða en síðan tekur hún yfir sviðið í fyrsta þættinum í einni mögnuðustu einræðu sem ég man eftir á sviði í langan tíma. Þvílík frammistaða. Ásthildur var mögnuð í Ketti á heitu blikkþaki á síðasta leikári og hér springur hún út sem ein besta leikkona sinnar kynslóðar. Í öðrum þætti umbreytist hún í Elektru og sýnir að hún hefur vald á breiðu sviði alls tilfinningaskalans.

Titilhlutverkið er í höndum Ebbu Katrínar Finnsdóttur. Það fer minna fyrir henni í fyrsta þætti verksins en afhjúpun hennar í hlutverki Órestesar sem stendur við gröf föður síns í lok þáttarins var áhrifarík. Ég áttaði mig ekki alveg á því af hverju Benedict lætur konu leika Órestes, mér fannst ekkert í textanum eða uppsetningunni sem kallaði á að láta konu leika hann – var karlkyns leikari ekki á lausu?

En burtséð frá því þá lék Ebba Katrín hlutverkið vel. Í hennar túlkun er Órestes ráðvilltur, fullur af reiði og örvæntingu. Og mér fannst samleikur Ebbu Katrínar og Ásthildar Úu í hlutverki systkinanna Órestes og Elektru spennandi. Þau eru ekki hermenn eða hetjur heldur líkari krökkum að fremja voðaverk – eitthvað sem við þekkjum því miður of vel úr samtímanum.

Ebba Katrín sem blóði drifinn Órestes.

Grjóthörð ádeila

Það má heldur ekki gleyma sjötta leikaranum í sýningunni en það er sviðsmyndin (eftir Elínu Hansdóttur). Kassanum hefur verið umbreytt í grískt hringleikhús þar sem skilin á milli áhorfenda og leikara hafa verið máð út. Þetta er allt í senn leiksvið, réttarsalur, hof og grafreitur. Á miðju sviðsins er ferningur með einskonar gipshellum sem leikararnir raða og týna upp á meðan leiknum vindur áfram. Það var nánast sársaukafullt að horfa á leikarana í þessum darraðardansi, sjá blóðug sporin undir fótum þeirra á gifshellunum sem brotnuðu margar eftir því sem á leið.

Sviðið bauð upp á margar túlkanir, myndir sem maður getur lesið í og búið til eigin tengingar. Þegar kom að morðinu á Klítemnestru hafði Elektra til að mynda raðað hellunum upp á rönd. Myndinni sem var varpað upp fékk mig til að hugsa um völundarhúsið sem Órestes og hin bölvaða ætt er týnd í (og hefur vísanir í grískar goðsögur) en ég sá líka í mínum huga minnismerki um helförin gegn gyðingum sem er staðsett rétt hjá Brandenborgarhliðinu í Berlín. Blóðug fötin sem lágu í hrúgum á sviðinu kölluðu fram myndir í huganum af gjöreyðileggingunni í Palestínu.

Þetta er sviðsmynd í hæsta klassa og ég hvet áhorfendur til að gefa sér tíma eftir að sýningu lýkur til að virða hana fyrir sér (spurning hvort hún eigi ekki í framtíðinni hreinlega heima á listasafni).

Áhorfendur eru í miklum námunda við sviðið.

Enginn afsláttur

Það er líka gaman að fá að upplifa nýja hlið á Benedict Andrews – hann á ekki minna hrós skilið sem leikskáld í þessari sýningu en sem leikstjóri. Það var spenna og dramatík í samtölum, verkið var vel uppbyggt og ég fílaði nútímalegar tilvísanir og slettur sem brutu upp textann. Mér fannst leikskáldið Benedict njóta sín einna best í þriðja þættinum þar sem söguþráðurinn varð minna mikilvægur og úrvinnslan frjálsari. Sena þar sem Benedict lét persónur verksins lýsa atburðum eins og í gegnum auga kvikmyndavélarinnar var eftirminnileg.

Blóð kallar á blóð.

Öll umgjörð verksins er til fyrirmyndar. Ég hef minnst á sviðsmyndina en það verður einnig að hrósa lýsingunni (Björn Bergsteinn Guðmundsson) og búningunum (Filippía I. Elísdóttir) sem voru svo sannarlega mikilvægur hluti af heildarmyndinni. Ég var samt ekki eins hrifinn af tónlistinni (Bára Gísladóttir) sem var flutt lifandi, var heldur eintóna og stundum aðeins of fyrirferðarmikil.

Mig langar líka að minnast á lokaorð verksins (sem Ásthildur Úa flutti af snilld) þar sem engin lýsing er á sviðinu utan flöktandi kertaloga. Þau sátu í mér þegar ég gekk út úr leikhúsinu – þar fannst mér Benedict varpa sjónum frá fortíðinni og horfa til framtíðar – þar sem algóryðmar og tækni hafa mögulega tekið völdin, þar sem við höfum misst tökin á náttúrunni og okkur sjálfum. Ég fékk á tilfinninguna að verkið væri ekki bara gagnrýni á grimmd og skeytingarleysi manneskjunnar heldur kannski þvert á móti... það er jú einmitt það órökrétta við manneskjuna sem gerir okkur mennsk. Í heimi gervigreindarinnar eru engar hefndir, engin stríð, bara ísköld tómhyggja og ekkert pláss fyrir manneskjur.

Ekki allra

Óresteia er miskunnarlaus sýning. Hún er listræn og ágeng, myrk og blóðug og löng. Það eru eflaust einhverjir sem munu láta sýningartímann (ca 4 tímar með tveimur hléum) fara í taugarnar á sér. Að búa til svona sýningu krefst hugrekkis og því á Þjóðleikhúsið hrós skilið fyrir að leggja upp í þessa vegferð og fara gegn „hefðunum“ í þessari jólasýningu. Ef það er eitthvað leikhús sem á að bjóða upp á sýningar eins og Óresteiu þá er það Þjóðleikhúsið.

Það má heldur ekki gleyma því hversu mikilvægt það er og hefur verið í gegnum tíðina að fá alvöru erlenda leikstjóra til landsins. Íslenski leikhúsheimurinn er ekki stór og við þurfum á því að halda að fá utanaðkomandi raddir, aðra sýn til að við stöðnum ekki. Í Óresteiu fáum við tækifæri til að sjá marga okkar bestu leikara ögra sjálfum sér, taka skref inn í óvissuna undir handleiðslu framúrskarandi listamanns sem sýnir að hann er ekki bara afburðar leikstjóri heldur einnig spennandi leikskáld. Fyrir þá sem vilja smá pásu frá söngleikjum og försum (sem eru ansi fyrirferðarmiklir í íslensku leikhúsi) þá er það vel þess virði að kíkja í Kassann.

Lokaniðurstaða: Óresteia er mögnuð upplifun með frábærum leikurum. Ásthildur Úa sýnir stjörnuleik, sviðsmyndin er listaverk og Benedict Andrews er orkudrykkurinn sem íslenskt leikhús þarf á að halda.


Tengdar fréttir

Flýta jólasýningunni um klukkutíma vegna lengdar

Á annan dag jóla frumsýnir Þjóðleikhúsið harmleikinn Óresteiu eftir Benedict Andrews. Jólafrumsýningin verður í fyrsta sinn ekki á stóra sviðinu heldur í Kassanum og hefst klukkutíma fyrr en vanalega enda rúmir fjórir tímar að lengd.

Getuleysi á stóra sviðinu

Löngun hennar í barn sem breytist í þrjáhyggju leiðir hana að lokum í einskonar geðrof og ofbeldisfullur endir verksins er ekki fyrir alla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.