Enski boltinn

„Ekki jólin sem ég bjóst við“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Wood fagnaði ófáum mörkum með Nottingham Forest á síðustu leiktíð en þetta tímabil hefur verið allt önnur og mun leiðinlegri saga
Chris Wood fagnaði ófáum mörkum með Nottingham Forest á síðustu leiktíð en þetta tímabil hefur verið allt önnur og mun leiðinlegri saga Getty/Carl Recine

Chris Wood, framherji Nottingham Forest, verður frá keppni um nokkurt skeið eftir að hafa gengist undir aðgerð yfir jólahátíðina.

„Ekki jólin sem ég bjóst við en maður veit aldrei hverju fótboltinn kastar í mann,“ skrifaði Chris Wood á samfélagsmiðla sína.

Nýsjálenski framherjinn hefur verið frá keppni síðan um miðjan október vegna hnémeiðsla og hefur enn ekki spilað undir stjórn Sean Dyche síðan hann tók við af Ange Postecoglou sem knattspyrnustjóri.

Hinn 34 ára gamli leikmaður stóð sig frábærlega á City Ground á síðasta tímabili, skoraði 20 mörk í 40 leikjum þegar liðið tryggði sér sæti í Evrópukeppni.

„Að fara frá öllum hápunktum síðasta tímabils yfir í baráttuna og persónulegu lægðirnar á þessu tímabili. Maður verður að vera viðbúinn öllu,“ skrifaði Wood.

Wood tilgreindi ekki hvers eðlis aðgerðin var en hann hefur sést með hnéspelku á meðan hann fylgist með nýlegum leikjum Forest. Síðasti leikur Wood var í lokaleik Postecoglou, 3-0 tapinu gegn Chelsea þann 18. október.

„Það er virkilega svekkjandi og pirrandi að ég þurfi að vera á hliðarlínunni í einhvern tíma í viðbót. Það er bara það sem þarf til að koma sterkari og betri til baka til að hjálpa liðsfélögum mínum að klára verkið sem þarf í úrvalsdeildinni og í Evrópu,“ skrifaði Wood.

„Takk til allra sem hafa hjálpað til við þetta. Margir hafa lagt mikið á sig yfir jólin til að hjálpa mér í bataferlinu. Mikilvægast er að þakka lækninum okkar og læknateyminu. Einnig leikmönnum, starfsfólki og NFC-fjölskyldunni,“ skrifaði Wood.

„Vona að þið hafið öll átt frábær jól, njótið nýja ársins og sjáumst árið 2026,“ skrifaði Wood.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×