Handbolti

Ung­verski línu­maðurinn verður ekki með á EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Varnarmenn Íslands hafa reynt ýmislegt til að stöðva Bánhidi í gegnum tíðina en átt mjög erfitt með.
Varnarmenn Íslands hafa reynt ýmislegt til að stöðva Bánhidi í gegnum tíðina en átt mjög erfitt með. Sven Hoppe/picture alliance via Getty Images

Ungverjaland er með Íslandi í riðli á EM í handbolta ungverska landsliðið hefur orðið fyrir miklu áfalli. Línumaðurinn Bence Bánhidi er meiddur og ferðast ekki með liðinu á mótið. 

Bánhidi er einn reynslumesti leikmaður landsliðsins en hefur verið að glíma við hnémeiðsli og náði sér ekki í tæka tíð fyrir mótið.

Margir muna eflaust eftir stórleiknum sem þessi 207 sentimetra hái línumaður átti gegn Íslandi HM 2023, í grátlegu tapi í Kristianstad í Svíþjóð sem gerði í raun út af við möguleika strákanna okkar á mótinu. 

Þjálfari Ungverja, Chema Rodríguez, útilokaði ekki að Bánhidi yrði með seinna á mótinu en hann ferðaðist ekki með liðinu til Kristianstad þar sem riðlakeppnin fer fram.

Ungverjar sakna einnig efnilegs hægri hornamanns að nafni Zsolt Krakovszki, sem spilar í heimalandinu og var hluti af silfurliði Ungverja á HM ungmenna 2023. Tvíburabróðir hans, vinstri hornamaðurinn Bence Krakovszki, verður hins vegar með á mótinu.

Ungverjar hefja leik á EM gegn Póllandi á föstudag, á sama tíma og Ísland mætir Ítalíu. 

Ísland og Ungverjaland munu svo mætast í lokaleik riðlakeppninnar næstkomandi þriðjudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×