Skoðun

Sam­vinna en ekki ein­angrun

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Hagsmunum Íslands er bezt borgið með því að eiga sem fullvalda ríki áfram í samvinnu við önnur ríki á jafnræðisgrunni þar sem hagsmunir fara saman í stað þess að einangra okkur innan gamaldags tollabandalags eins og Evrópusambandinu sem stefnt hefur að því leynt og ljóst frá upphafi að verða að sambandsríki. Samvinna er eitt og almennt af hinu góða en samruni ríkja, eins og átt hefur sér stað innan sambandsins í vaxandi mæli undanfarna áratugi, er hins vegar allt annað.

Tilefni þessara skrifa er grein sem birtist á Vísi í gær eftir Maríu Malmquist, stjórnarmann í Ungum Evrópusinnum og Uppreisn, ungliðahreyfingu Viðreisnar, þar sem hún vildi meðal annars meina að ef Ísland gengi ekki í Evrópusambandið væri það ávísun á einangrun, að innan sambandsins ríkti stöðugleiki, að innganga í það myndi „tryggja okkur efnahagslegt, pólitískt og samfélagslegt öryggi“, áhrif og „gríðarlegan ávinning“ sem ekki var þó útskýrt frekar í hverju fælist.

Fyrir það fyrsta er það auðvitað alls ekki svo að mælikvarðinn á það, hvort ríki geti talizt einangruð, sé hvort þau séu í Evrópusambandinu eða ekki. Ef sú væri raunin ætti það ljóslega við um mikinn meirihluta ríkja heimsins sem eru jú ekki þar innanborðs. Þvert á móti er Ísland á meðal alþjóðatengdustu ríkjum heimsins. Innan Evrópusambandsins fer vægi ríkja við ákvarðanatöku fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Þannig yrði vægi Íslands í ráðherraráði sambandsins, valdamestu stofnun þess, allajafna aðeins 0,08% sem væri á við 5% hlutdeild í einum alþingismanni.

Með öðrum orðum yrði vægi Íslands innan Evrópusambandsins lítið sem ekkert. Þetta er svokallað sæti við borðið sem Evrópusambandssinnar tala gjarnan um. Það er ástæða fyrir því að formaður Evrópuhreyfingarinnar talaði einungis um hugsanleg áhrif okkar innan sambandsins í grein á Vísi á dögunum. Hins vegar er ekkert hugsanlegt með það að langflestir okkar málaflokkar færu undir stjórn Evrópusambandsins ef við yrðum hluti þess. Það er niður neglt í Lissabon-sáttmálamm, grundvallarlöggjöf þess. Þar á meðal frelsi okkar til þess að gera viðskiptasamninga við önnur ríki.

Hinn meinti stöðugleiki innan Evrópusambandsins heitir réttu nafni stöðnun og þá ekki sízt á efnahagssviðinu. Lágir vextir innan sambandsins eru þannig engan veginn birtingarmynd heilbrigðs efnahagsástands þar á bæ heldur efnahagslegrar stöðnunar með víðast hvar litlum sem engum hagvexti árum saman og jafnvel á uppgangstímum, lítilli framleiðni og viðvarandi miklu atvinnuleysi. Einkum í röðum ungs fólks. Það er ástæða fyrir því að Evrópusambandssinnar tala helzt aldrei um aðrar hagstærðir en vexti. Tilgangur lágra vaxta er jú sá að reyna að koma stöðnuðu atvinnulífi af stað.

Hvað síðan varðar þá fullyrðingu að með inngöngu í Evrópusambandið yrði efnahagslegt, pólitískt og samfélagslegt öryggi Íslands tryggt nægir líklega að rifja það upp hvernig forystumönnum Evrópusambandsins tókst einmitt að koma efnahagslegu, pólitísku og samfélagslegu öryggi sambandsins í fullkomið uppnám með því að gera það háð rússnesku jarðefnaeldsneyti með gríðarlegum kaupum á því árum og áratugum saman og fjármagna þannig hernaðaruppbyggingu og síðan hernað Rússa í Úkraínu. Það sem meira er þá eru ríki Evrópusambandsins enn að kaupa jarðefnaeldseyti frá Rússlandi fyrir mjög háar fjárhæðir og gera ekki ráð fyrir því að hætta því alfarið fyrr en í byrjun næsta árs. Takist það.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×