Fótbolti

Fjórði leikur Genoa í röð án taps

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Egill Ellertsson í baráttu við Mandela Keita í leik Parma og Genoa í dag.
Mikael Egill Ellertsson í baráttu við Mandela Keita í leik Parma og Genoa í dag. getty/Emmanuele Ciancaglini

Mikael Egill Ellertsson lék allan leikinn þegar Genoa gerði markalaust jafntefli við Parma á útivelli í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.

Genoa er taplaust í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og er nú sex stigum frá fallsæti. Albert Guðmundsson og félagar í Fiorentina, sem eru í 18. sætinu, eiga reyndar leik til góða gegn Bologna í dag.

Mikael hefur leikið alla deildarleiki Genoa á tímabilinu nema einn og skorað eitt mark. Hann kom til liðsins frá Venezia fyrir þetta tímabil.

Genoa byrjaði tímabilið afleitlega og vann ekki í fyrstu níu deildarleikjum sínum. Síðan þá hefur liðið aðeins tapað þremur af tólf leikjum sínum, gegn Inter, Atalanta og Roma. Daniele De Rossi tók við Genoa í byrjun nóvember og gamli Rómverjinn hefur snúið gengi liðsins við.

Næsti leikur Genoa er gegn Bologna á heimavelli eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×