Handbolti

Al­freð tekur á sig sökina: Gagn­rýndur ó­beint af leik­manni

Aron Guðmundsson skrifar
Það er þung stemning í þýska karlalandsliðinu í handbolta eftir svekkjandi úrslit á EM í kvöld gegn Serbum
Það er þung stemning í þýska karlalandsliðinu í handbolta eftir svekkjandi úrslit á EM í kvöld gegn Serbum Vísir/Samsett

Juri Knorr, leikstjórnandi þýska landsliðsins, virtist gagnrýna landsliðsþjálfarann Alfreð Gíslason óbeint í viðtali eftir svekkjandi tap gegn Serbum á EM í kvöld þar sem Alfreð gerði sig sekan um slæm mistök.

Serbar fóru með þriggja marka sigur af hólmi, 30-27, frá leik kvöldsins og eygja enn möguleika á sæti í milliriðlum fyrir lokaumferð riðlakeppninnar.

Samkvæmt þýskum miðlum eftir svekkjandi úrslit kvöldsins þykir það eftirtektarvert hversu auðsjáanlega gramur Juri Knorr, leikstjórnandi þýska landsliðsins var í viðtölum en leikmaðurinn hefur mátt sætta sig við takmarkaðan spiltíma undir stjórn Alfreðs upp á síðkastið en byrjaði þó leik kvöldsins.

Ekki bætti það úr skák í stöðunni 26-25 Serbum í vil, nokkrum mínútum fyrir leikslok, að þegar Juri Knorr virtist hafa skorað jöfnunarmark hafði Alfreð nokkrum sekúndubrotum áður en boltinn fór yfir marklínuna beðið um leikhlé og því stóð mark Þjóðverjans ekki og Þýskaland því einu marki undir.

Þeim tókst ekki að snúa leiknum sér í vil fyrir leikslok og töpuðu á endanum með þremur mörkum 30-27. 

Í viðtali eftir leik telja þýsku miðlarnir að Knorr hafi óbeint gagnrýnt Alfreð en Þjóðverjar munu helst þurfa að vinna Spánverja í lokaleik sínum í riðlakeppninni og vonast til þess að Serbar tapi stigum gegn Austurríki til þess að komast áfram í milliriðla. 

„Við gerum það ekki einir. Okkur mun ekki takast það eru aðeins leikmennirnir sem spila mínúturnar sextíu,“ sagði Knorr um baráttuna framundan en þetta telja þýsku miðlarnir vera skot á þjálfarann Alfreð.

Pressan var fyrir mikil á Alfreð því þó að samningur hans við þýska handknattleikssambandið gildi til ársins 2027 lét forseti sambandsins hafa það eftir sér undir lok síðasta árs að staða Íslendingsins yrði til skoðunar ef gengi Þýskalands á EM yrði undir væntingum.

Alfreð var sjálfur skiljanlega svekktur með niðurstöðu kvöldsins og tók á sig sökina vegna mistakanna undir lok leiks.

„Ég vildi taka leikhlé á meðan að það væri enn fullur kraftur í okkur. Því miður ýtti ég nokkrum sekúndubrotum of snemma á leikhlés takkann. Það er algjörlega mín sök,“ sagði Alfreð í viðtali við ARD eftir leik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×