Handbolti

Þúsundir Fær­eyinga fögnuðu með liðinu í eftirpartýi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fyrirliðinn Pauli Jacobsen var tolleraður.
Fyrirliðinn Pauli Jacobsen var tolleraður. roysni.fo/sverri egholm

Færeyingar féllu úr leik á Evrópumótinu í handbolta í gærkvöldi með mjög svekkjandi hætti. Stuðningsmenn liðsins gátu þó glaðst yfir flottum árangri á mótinu. Leikmönnum var allavega vel tekið eftir leikinn í gær.

Um sjö þúsund Færeyingar lögðu leið sína á Evrópumótið, eða um tólf prósent allrar þjóðarinnar.

Flugmenn landsins hafa unnið mikla yfirvinnu til að koma öllum mannfjöldanum til Noregs og Norræna ferjan flutti líka fjölda farþega, margir þeirra gistu þar um borð við hafnarbakkann í Osló. Leikskólum og ýmissi annarri starfsemi í landinu var lokað og þá lagði þingið niður störf því flestir þingmenn Færeyja mættu á mótið

Sterkt jafntefli varð niðurstaðan í fyrsta leik gegn Sviss og frækinn fyrsti sigur Færeyinga á stórmóti vannst síðan gegn Svartfjallalandi, en svekkjandi tap varð niðurstaðan gegn Slóveníu í gær, eftir að Færeyingar höfðu verið tveimur mörkum yfir um miðjan seinni hálfleik.

Færeyjar komust þess vegna ekki áfram í milliriðil í fyrsta sinn á stórmóti og mannfjöldinn mikli er nú á heimleið en ekki til Malmö í Svíþjóð eins og vonast var til.

Svekkelsið var skiljanlega mikið meðal leikmanna og stuðningsmanna, en þau voru fljót að bæta úr því.

Stuðningsmenn Færeyja héldu eftirpartý í gömlum bragga við Fornebu flugvöllinn í Oslo, þar sem þúsundir manna mættu og fögnuðu árangri liðsins.

Færeyingar gerðu gamalt flugskýli í Osló að sínum heimavelli á meðan mótinu stóð.

Færeyski miðillinn Roysni segir frá eftirpartýinu og Sverri Egholm festi fjörið á filmu.

Landsliðsmenn Færeyja mættu síðan á svæðið og þeim var gríðarlega vel tekið, fyrirliðinn var tolleraður og aðrir leikmenn munduðu míkrafóninn.

Lögin „Sunnukvøld í Mai“ og „Ormurin Langi“ voru sungin er færeyskir stuðningsmenn drekktu í sig stórmótastemninguna í síðasta sinn, á þessu ári allavega.

Fleiri flottar myndir úr þessa stórskemmtilega eftirpartýi má finna hér hjá Roysni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×