Handbolti

Læri­sveinar Dags spila bönnuðu lögin í klefanum

Sindri Sverrisson skrifar
Luka Cindric og félagar mæta Íslandi í Malmö, í milliriðlakeppninni á EM.
Luka Cindric og félagar mæta Íslandi í Malmö, í milliriðlakeppninni á EM. EPA/Andreas Hillergren

Luka Cindric, ein helsta stjarnan í liði Króata sem Dagur Sigurðsson stýrir, segir það heimskulegt af mótshöldurum að banna lög með Thompson á Evrópumótinu í handbolta.

Cindric segir alveg ljóst að Króatar muni hlusta á lög hins umdeilda Thompson, eða Marko Perkovic eins og söngvarinn heitir, og þó að þau fái ekki að heyrast í hátalarakerfinu í handboltahöllinni í Malmö þá muni leikmenn bara hlusta á lögin í rútunni og inni í búningsklefa.

Króatar mæta Svíum í kvöld og tapliðið í þeim slag verður næsti mótherji Íslands, á föstudaginn. Sigurliðið mætir Íslendingum á sunnudaginn.

Eins og fjallað var um síðasta sunnudag gerðu mótshaldarar þau mistök að spila lag með Thompson fyrir fyrsta leik Króata á EM, þegar þeir mættu Georgíu. Nokkuð sem lýst var sem hneyksli vegna þess hve umdeildur Thompson væri.

Thompson hefur verið sakaður um að vera fasisti og að sumir lagatexta hans styðji við það. Þar megi meðal annars finna upp­hefð á verkum Ustasha hreyfingarinnar, fasískrar hreyfingar sem var þekkt fyrir þjóðernispólitík og of­beldis­fullar að­gerðir en hún var alþjóð­lega tengd við nas­ista Þýska­lands sem og fas­ista á Ítalíu, á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þess vegna hafa lög hans ekki fengið að hljóma á alþjóðlegum íþróttaviðburðum.

Hann er hins vegar afar vinsæll hjá leikmönnum króatíska liðsins og var með Degi uppi á sviði í fagnaðarlátum í miðborg Zagreb fyrir ári, þar sem Króatar fögnuðu óvæntum HM-silfurverðlaunum.

Og á meðan að Íslendingar kjósa að hlusta á „Lífið er yndislegt“ og syngja með á yfirstandandi Evrópumóti þá myndu Cindric og félagar vilja heyra lög Thompson. 

„Við hlustum bara á lögin hans í búningsklefanum og inni í rútu í staðinn,“ sagði Cindric við Aftonbladet í Svíþjóð.

„Mér finnst þetta [bannið] bara heimskulegt. við þekkjum hann, okkur líkar við hann og við styðjum hann alltaf. Mér finnst rangt að banna eitthvað bara af því að hann elskar landið sitt og syngur um hve fallegt landið hans er. Lögin hans eru um landið okkar, sem við erum stolt af, og snúast ekki um að vera á móti öðrum löndum,“ sagði Cindric.

„Ég vil ekki fara út í einhverja pólitík. En við erum vanir að heyra eitthvað svona um hann. Það skiptir ekki máli hvað aðrir segja, við munum alltaf spila lögin hans,“ sagði leikstjórnandinn þrautreyndi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×