Innlent

Á­kærður fyrir mann­dráp af gá­leysi

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, er ákærður fyrir manndráp af gáleysi vegna sjóslyss. Slysið varð þegar bátur hans steytti á Skarfaskeri í Viðeyjarsundi í september síðastliðnum.

Jónas er ákærður fyrir brot á hegningarlögum og siglingalögum vegna slyssins sem varð aðfaranótt laugardagsins tíunda september síðastliðinn. Þau Friðrik Ásgeir Hermannsson og Matthildur Harðardóttir létu lífið í slysinu. Í ákærunni segir að Jónas hafi verið undir áhrifum áfengis við stjórn skemmtibátsins Hörpu og ekki haft gát á siglingaleiðinni sem silgt var talsverðum vindi og slæmu skyggni. Hann er sagður hafa með stórfelldri vanrækslu orðið valdur að því að báturinn steytti á Skarfaskeri á allt að sautján sjómílna hraða. Þá segir að Friðrik Ásgeir hafi látist að áverkum sem hann hlaut þegar báturinn skall á skerinu. Eins hlaut eiginkona Jónasar verulega áverka við strandið. Jónas er líka ákærður fyrir að hafa ekki gert ráðstafanir til að bjarga farþegunum þegar báturinn losnaði af skerinu. Hann kallaði ekki til björgunarliða né silgdi skemmstu leið í land heldur tók stefnu austur Viðeyjarsund þar sem bátnum hvolfdi skömmu síðar með þeim afleiðingum að Matthildur drukknaði. Þá hlaut eiginkona Jónasar ofkælingu við að lenda í sjónum þar sem hún hélt sér á kili bátsins ásamt Jónasi og syni þeirra.

Jónas sagðist ætla að skýra frá sinni hlið málsins við aðalmeðferð en hún verður fimmta maí næstkomandi en hann hafaði ákærunni að öllu leyti í réttarsalnum í dag. Jónas hafnaði líka bótakröfu í málinu sem fjölskyldur þeirra látnu fara fram á.

Verði Jónas sakfelldur gæti hann átt allt að sex ára fangelsi yfir höfði sér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×