Innlent

Af­leiðingar höfuðhöggs Jónasar metnar

Lögmaður Jónasar Garðarssonar, fyrrverandi formanns Sjómannafélags Reykjavíkur, óskaði eftir því að dómkvaddir matsmenn legðu mat á hvort Jónas hafi verið fær um að taka meðvitaðar rökréttar ákvarðanir eftir slysið á Viðeyjarsundi sökum höfuðhöggs sem hann hlaut. Mál Jónasar var tekið fyrir í Hæstarétti í morgun.

Jónas var í byrjun júní á síðasta ári dæmdur í þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Tvennt lét lífið þegar Harpa, skemmtibátur Jónasar, steytti á Skarfaskeri haustið 2005. Matthildur Harðardóttir og sambýlismaður hennar, Friðrik Ásgeir Hermannsson, létust í slysinu. Tíu ára sonur Jónasar slapp ómeiddur en Jónas og kona hans slösuðust nokkuð.

Lögmaður Jónasar óskaði eftir því, þegar málið var tekið fyrir í Hæstarétti, að tveir dómkvaddir matsmenn, á sviði heila- og taugalækninga, myndu meta hvort Jónas hafi verið fær til að taka meðvitaðar ákvarðanir eftir að báturinn steytti skerinu. Niðurstaða matsmanna var sú að hann hafi ekki getað tekið meðvitaðar rökréttar ákvarðanir sökum höfuðhöggs sem hann hlaut. Niðurstöðuna byggja þeir mikið til á samtölum við starfsmenn Neyðarlínunnar sem voru ræddu við Jónas nóttina sem slysið varð.

Sigríður Friðjónsdóttir, sem fer með málið fyrir ákæruvaldið, sagði ekki rétt að byggja dóm Hæstaréttar á matinu. Jónas hafi verið fullfær um að taka ákvarðanir á þessum tímapunkti. Þó hann hafi vankast eftir slysið beri hann fulla ábyrgð á þeim aðgerðum sínum að sigla burt af skerinu og leita ekki strax aðstoðar. Búast má við dómi Hæstaréttar á næstu einni til tveimur vikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×