Innlent

Jónas: Borga ekki fyrr en ég hef lokið af­plánun

Andri Ólafsson skrifar
Jónas Garðarsson.
Jónas Garðarsson. MYND/PS

Jónas Garðarsson, sem Hæstiréttur hefur dæmt í þriggja ára fangelsi og til að greiða 10 milljónir í skaðabætur fyrir að vera valdur að dauða Matthildar Viktoríu Harðardóttur og Friðriks Hermannsonar þegar skemmtibáturinn Harpa sökk í Viðeyjarsundi, segist ekki ætla að greiða krónu í skaðabætur fyrr en hann hafi lokið afplánun sinni.

"Ég og fjölskylda mín þurfum að lifa. Ég þarf fyrst að huga að fjárhagslegu öryggi þeirra áður en ég get hugsað um nokkuð annað. Ekki fyrr en ég er búinn að ljúka því að afplána þennan dóm get ég brett upp ermarnar og klárað það sem þarf að klára," segir Jónas.

Aðstandendur hinna látnu hafa látið í ljós áhyggjur að Jónas muni reyna að koma sér hjá því að greiða þær skaðbætur sem hann var dæmdur til, meðal annars með því að selja skemmtibátinn sem sökk þegar Matthildur og Friðrik létust.

Jónas segir það ekki rétt. Báturinn hafi verið ónýtur og nánast verðlaus. Hann vill þó ekki gefa upp hve mikið hann fékk greitt fyrir hann.

Einbýlishús sem Jónas býr í ásamt fjölskyldu sinni er skráð á eiginkonu hans. Aðspurður hvort það verði selt til að greiða skaðabæturnar vill Jónas engu svara.

„Ég er borgunarmaður fyrir þessum peningum. Það er alveg klárt mál. En í augnablikinu er ég einfaldlega að hugsa um fjölskyldu mína og hennar hag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×