Körfubolti

Þjálfari Úlfanna skammaði stór­stjörnu liðsins: „Þú verður að gefa tóninn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Edwards hefur oft spilað betur en í nótt.
Anthony Edwards hefur oft spilað betur en í nótt. getty/David Berding

Eftir tap Minnesota Timberwolves fyrir Golden State Warriors, 88-99, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í nótt skammaði þjálfari Úlfanna, Chris Finch, skærustu stjörnu liðsins, Anthony Edwards.

Minnesota, sem sló Los Angeles Lakers út í 1. umferð úrslitakeppninnar, 4-1, leit ekki vel út gegn Golden State í nótt og mistókst að nýta sér það að Stephen Curry fór snemma meiddur af velli.

Finch vildi sjá meira frá Edwards sem skoraði 23 stig og tók fjórtán fráköst. En hann var aðeins með eitt stig í hálfleik og klikkaði á fyrstu tíu skotum sínum.

„Þetta byrjar hjá Ant. Mér fannst hann vera í vandræðum og þá sástu ljósið svolítið slökkna um tíma,“ sagði Finch. Hann var svekktur að þurfa að hnýta í Edwards.

„Hvað er hægt að tala um? Þú ert leiðtogi liðsins. Þú verður að gefa tóninn. Ef þú ert ekki að hitta verðurðu að stjórna orkunni. Ef ég þarf að tala við strákana um að vera með rétta orku í svona leik erum við ekki á sömu blaðsíðu,“ sagði Finch.

Edwards var ekki sammála þjálfaranum um skort á framlagi hjá sér í leiknum í nótt. Hann tók gagnrýni Finch þó til sín.

„Fólk mun reyna að kenna einhverjum um. Það getur kennt mér um en við spiluðum ekki nógu vel,“ sagði Edwards sem var fjórði stigahæsti leikmaður NBA í vetur með 27,6 stig að meðaltali í leik.

Minnesota og Golden State mætast öðru sinni aðfaranótt föstudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×