Skoðun

Orðskrípið sem bjarga á veiði­gjaldinu

Ólafur Adolfsson skrifar

Veiðigjaldafrumvarpið sem rætt var á Alþingi í vikunni vekur upp áhyggjur eins og það er í núverandi mynd – sérstaklega þegar litið er til þeirra byggða sem mest reiða sig á sjávarútveg. Þetta mun hafa mikil áhrif á byggðir í mínu kjördæmi í Norðvestur þar sem litlar og meðalstórar útgerðir og fiskvinnslur og fyrirtæki tengd þeim eru burðarás atvinnulífsins og standa undir helmingi eða meira af útsvarstekjum margra sveitarfélaga.

Sveitarstjórar, fyrirtæki og íbúar hafa ítrekað lýst áhyggjum af þeim auknu álögum sem breytingarnar boða en í umsögnum til samráðsgáttar hafa sveitarfélög í Norðvestur sagt skýrt að tímamörk samráðs hafi verið of stutt og áhrif gjaldsins verði íþyngjandi.

Þótt vissar breytingar hafi nú verið gerðar á frumvarpinu, og einhverjum afsláttarákvæðum bætt við, tel ég að enn sé óljóst hvort þau dugi og það sama á við um sveitarstjórnarfulltrúa í mínu kjördæmi. Þeir hafa fagnað hækkun frítekjumarks en gagnrýna – eins og við Sjálfstæðismenn – skort á greiningum um hvort þetta muni í raun og veru plástra sárið sem þessi skattahækkun mun skilja eftir sig.

Svo er það þetta orð; frítekjumark. Ég, sem ferkantaður lyfjafræðingur, get ekki notað þetta orð enda er það ekkert annað en orðskrípi. Það gefur í skyn einhvers konar skjól eða vernd en í raun er það bara afsláttur á gjaldi og dregur athyglina frá kjarna málsins í þessari umræðu.

Ég fagna því að frá fyrsta uppkasti hafi verið gerðar breytingar til að mæta áhyggjum sjávarsveitarfélaganna en allt þarf þetta að vera fyrirsjáanlegt og byggt á raunverulegri greiningu á áhrifum. Fyrirtækin í Norðvesturkjördæmi hafa unnið hörðum höndum að verðmætasköpun og nýsköpun, t.d. í vinnslu á laxi og öðrum sjávarafurðum. Ef við ráðist verður gegn þeim með illa ígrundaðri skattahækkun missum við ekki aðeins tekjur – heldur traust, framtíð og búsetu.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×